fbpx

Norðurlandmót Unglinga í hópfimleikum

Um síðustu helgi fóru kvenna og mix lið 1. flokks Gerplu á Norðurlandamót unglinga sem haldið var í Randers í Danmörku. Liðin höfðu fyrr í vetur unnið sér inn þátttökurétt með að verða í fyrsta sæti á Bikarmóti Fimleikasambandsins í Febrúar. Ferðalagið hófst snemma á fimmtudagsmorgninum 7. apríl með flugi til Kastrup og svo rútuferð í til Randers. Á föstudeginum fengu liðin svo að æfa í keppnissalnum þar sem keppnin fór svo fram á laugardeginum 9. apríl.

1. fl mix keppti á undan og hófu þau keppni á dýnu og gerðu sér lítið fyrri og lentu öll sín stökk. Mjög svo áreynslulaus dýna með frábærri framkvæmd og uppskáru þau þriðju hæstu einunnina á dýnunni. Eftir það fóru þau á trampolín þar sem þau gerðu mjög flottar æfingar en þó nokkur mistök sem kostuðu stig. Þau enduðu svo í dansi og sýndu frábærar æfingar og uppskáru þriðju hæstu einkunn á gólfi. Þessar æfingar skiluðu liðinu í 4. sæti í fjölþrautinni sem er frábær árangur fyrir þetta unga og efnilega lið. Það er gaman að segja frá því að allir strákarnir nema einn eru það ungir að þeir eru gjaldgengir á Norðurlandamót unglinga eftir tvö ár og verður frábært að fylgjast með þeim þá eftir að hafa öðlast dýrmæta reynslu í Danmörku.

1. fl kvenna áttu ekki sinn besta dag. Þær byrjuðu á gólfinu og sýndu frábærar æfingar en hnökrar í tveimur erfiðleikaæfingum urðu til þess að erfiðleikaeinkunn lækkaði miðað við upphafseinkunn og því var einkunn þeirra aðeins lægri en við var að búast. Þær fengu hinsvegar mjög háa framkvæmdareinkunn sem þýðir að dansinn var mjög vel dansaður og stelpurnar vel samtaka. Þær fengu fjórðu hæstu einkunnina á mótinu á gólfinu. Næsta áhald var dýnan og voru fyrstu tvær umferðirnar mjög góðar en nokkur mistök í framumferð urðu til þess að þær misstu dýrmæt stig. Framumferðin er sú umferð sem gengið hefur best í vetur en þegar adrenalínið er á fullu getur hún reynst snúin.  Á trampólíninu voru stökkin í heildina mjög flott en nýjar reglur eru fljótar að refsa þegar keppendur detta í stökkunum og voru nokkur föll í umferð tvö. Trampólínæfingarnar skiluðu þeim samt sem áður í 4. sæti þar.  Eftir harða baráttu um þriðja sætið endaði kvennaliðið í 5.sæti á mótinu af tíu liðum. Efnilegar stúlkur hér á ferð sem verður gaman að sjá vaxa og dafna á næstu árum.

Þetta mót fer í reynslubankann hjá báðum liðum og það verður gaman að fylgjast með þeim á Íslandsmótinu eftir rúmar tvær vikur sem haldið verður á Selfossi 30. apríl.

Það er gaman frá því að segja að hópurinn í heild var frábær! Mikil gleði, samheldni, virðing og metnaður einkenndi hann allt ferlið og erum við afar stolt af þeim. Við viljum enda á að þakka Iðkendum, foreldrum og þjálfrunum fyrir frábært verkefni því bæði lið voru til fyrirmyndar bæði innan sem utan keppnishallarinnar.

Áfram Gerpla!

Viðtöl eftir mótið:

Stutt video af æfingadeginum:

Sutt video af keppnisdeginum:

Myndir frá æfingadeginum:

https://www.facebook.com/media/set/?set=a.4908836685819986&type=3

You may also like...