fbpx

Áhaldafimleikadeild kvenna

UM GREININAÞREPINKEPPNISFATNAÐUR

ÁHALDAFIMLEIKAR KVENNA

Áhaldafimleikar kvenna er einstaklingsíþrótt þar sem einstaklingurinn þarf að tileinka sér sjálfstæði og aga í vinnubrögðum sínum til að ná árangri. Íþróttin er líkamlega mjög krefjandi en einnig þarf tenging hugar og líkamsvitundar að vera góð til að einstaklingurinn geti byggt upp og sett saman flóknar æfingar. Nákvæmni og einbeiting er meðal lykilþátta við iðkun fimleika þar sem æfingar eru framkvæmdar við krefjandi aðstæður. Keppt er á fjórum mismunandi áhöldum, stökki, tvíslá, slá og gólfi en hvert áhald hefur sýna sérstöðu.

Stökk

Er kraftmikið áhald, þar sem fimleikakonan hleypur í áttina að hestinum á sem mestum hraða til að framkvæma stökk með mikilli hæð, góðri lengd frá hestinum, óaðfinnanlegri framkvæmd og það mikilvægasta, að lendingin sé fullkomin án þess að taka skref. Fimleikamaðurinn hefur eingöngu eina tilraun til að gera fullkomið stökk.

Tvíslá

Til að framkvæma heila rútínu á tvíslánni þarf fimleikakonan að búa yfir miklum styrk, góðu úthaldi og fullkominni tímasetningu, Rútínan á að flæða frá upphafi til enda þar sem æfingar eru framkvæmdar hver á eftir annari án stopps. Sveifluæfingar á ránni fara með fimleikamanninn undir og yfir rárnar í allar áttir. Allar æfingar á tvíslánni byrja og enda í handstöðu. Sveiflur, risasveiflur, snúningar, flugæfingar þar sem fimleikmaðurinn grípur í sömu rá eða hina ránna eru skylda áður en framkvæmt er fullkomið afstökk.

Jafnvægisslá

Jafnvægissláin er hugsanlega það áhald sem krefst hvað mestrar einbeitingar. Jafnvægissláin er 120 cm á hæð og 10 cm breið, þar sem fimleikakonan þarf að sýna áræðni, glæsileika, flæði í hreyfingum og ótrúlega mikla einbeitingu. Rútínan á jafnvægisslánni þarf að innihalda samsetningu af snúningum, hoppum og akróbatik æfingum sem framkvæmdar eru fram, aftur og til hliðar, einnig þarf að framkvæma tvær til þrjár æfingar sem tengdar eru saman til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru.

Gólfæfingar

Þar sem dans og stökkseríur eru framkvæmdar í takt við tónlist ásamt því að persónuleiki og sköpunarhæfileikar fimleikakonunnar í hreyfingum fá að njóta sín. Fimleikakonan verður að nýta allan gólfflötinn og hefur hún eingöngu 90 sekúndur til þess. Það þarf mikið þrek til að framkvæma þrjár til fjórar stökkseríur innan tímarammans ásamt hoppseríum, snúningum og að sýna mikið listfengi í gegnum æfinguna.

Um þrepin

Íslenski fimleikastiginn er gefinn út á fjögurra ára fresti og hefur sú útgáfa haldist í hendur við nýjar dómarareglur Alþjóðlega Fimleikasambandsins (FIG). Það er mikilvægt fyrir þjálfara og dómara að kynna sér vel innihald fimleikastigans sem og alþjóðlegar dómarareglur FIG en einnig getur verið mjög gagnlegt fyrir iðkendur og forráðamenn að kynna sér uppbyggingu og markmið stigans.
Fimleikastiginn er byggður upp sem keppnisæfingar í áhaldafimleikum en er ekki tæmandi yfir þær grunnæfingar sem nauðsynlegar eru í þjálfun fimleika. Fimleikastiginn er nú byggður upp á átta þrepum ætluðum til æfinga og keppni í áhaldafimleikum kvenna. Fimm efstu þrepin eru ætluð til keppni á mótum FSÍ en lægstu þrjú þrepin eru ætluð til keppni á innanfélags- og vinamótum og til leiðbeiningar um uppbyggingu kennslu fimleikaæfinga í áhaldafimleikum. Neðstu þrepin, 7. og 8. þrep, eru ætluð til notkunar innan félaga sem viðmið fyrir einfaldar samsettar grunnæfingar þar sem hver er að keppa við sjálfan sig og er stigagjöfin einfalt matskerfi. Uppbygging fimleikastigans er að 1. og 2. þrep eru léttar frjálsar æfingar sem styðjast við reglur FIG. 3., 4. og 5. þrep eru skylduæfingar með vali á hverju áhaldi sem hafa sérstakt erfiðleikagildi. Félögin semja hreyfingar á jafnvægisslá og gólfi að undanskyldri einni línu á jafnvægisslá sem er forsamin fyrir öll félög.

Helstu markmið með fimleikastiganum

  • Að vera leiðbeinandi afl í fimleikum kvenna á Íslandi, bæði í vali á æfingum og samsetningum æfinga en þó ekki tæmandi yfir þær grunnæfingar sem nauðsynlegar eru í þjálfun fimleika
  • Að auka gæði íslenskra fimleika og auka breidd innan áhaldafimleikanna
  • Að skapa réttlátan samkeppnisgrundvöll í keppni í áhaldafimleikum
  • Að það sé eðlilegur stigsmunur á milli þrepa og að það taki að meðaltali tvö ár að ná hverju þrepi
  • Að undirbúa keppendur fyrir keppni í frjálsum æfingum
  • Ef iðkandi hefur ekki náð þrepi á 24 mánuðum og nær því ekki að flytjast upp um þrep er mælt með því að prufa hópfimleika og athuga hvort styrkleikar iðkandans liggi frekar þar.

Uppbygging einkunnar

Einkunn byggist upp á tveimur einkunnum, D einkunn og E einkunn. D einkunn samanstendur af erfiðleikagildum, sérkröfum og samtengingum. E einkunn byrjar í 10,00 og frá henni dragast framkvæmdarvillur og listfengi. Meðaltal E einkunna er fundið og lagt við D einkunn til þess að fá lokaeinkunn. Lokaeinkunn er reiknuð með þremur aukastöfum, engin námundun.

Ítarlegri upplýsingar um fimleikastiga kvenna er að finna á eftirfarandi slóð: https://fimleikasamband.is/domarareglur-kvenna/

6.ÞREP

Um þrepið

6.þrep Íslenska fimleikastigans er lokastig í þeim grunnþrepum stigans sem keppt er í á innanfélags- og vinamótum. 6. Þrepið er undirbúningsþrep fyrir fyrsta stig í keppni á vegum Fimleikasambands Íslands. FSÍ gerir engar kröfur um fyrirfram ákveðinn stigafjölda sem þarf að ná á þessu stigi, heldur er um faglegt mat þjálfara og yfirþjálfara félaga að ræða hvenær fimleikastúlkan hefur náð nægilega góðum tökum á þeim grunnæfingum sem þrepið inniheldur. Einnig er gott að hafa náð góðum tökum á þeim æfingum sem næsta þrep fyrir ofan inniheldur til að 6. Þrepið teljist “náð”.

Helstu markmið

  • Að auka styrk, þol og liðleika fimleikastúlkunnar
  • Að auka þekkingu og færni þeirra á grunnæfingum fimleika
  • Að auka sjálfstraust þeirra úti á keppnisgólfinu
  • Að undirbúa þær undir keppni á vegum FSÍ

Fjöldi æfinga

Iðkendur í 6.þrepi æfa að jafnaði 4,5 – 6 klukkustundir á viku, eina og hálfa eða tvær klukkustundir í senn. Iðkendum er raðað í hópa eftir aldri og getu og reynt er að hafa ekki fleiri en 14-16 iðkendur á hvern þjálfara.

5.ÞREP

Um þrepið

5. Þrep Íslenska fimleikastigans er fyrsta keppnisþrepið sem keppt er í á mótum á vegum Fimleikasambands Íslands. Þrepið byggist upp á grunnæfingum, léttum samsetningum og samtengdum æfingum. Rík áhersla er lögð á grunnæfingar og að ná góðum tökum á þeim. 5. Þrepið er frábrugðið efri þrepunum þar sem valið er minna á milli æfinga en þó eru nokkrar undirtekningar, innihald þrepsins er byggt upp á þeim almennu grunnæfingum sem mikilvægt er fyrir allar fimleikastúlkur að tileinka sér.

Tækninefnd kvenna gaf út fyrir fimleikastigann ákveðin stiga lágmörk til að ná þrepi, stigalágmörkin fyrir 5. Þrep er 56,00 stig.

Helstu markmið

  • Að auka styrk, þol og liðleika fimleikastúlkunnar
  • Að auka þekkingu og færni þeirra á grunnæfingum fimleika
  • Að auka sjálfstraust þeirra úti á keppnisgólfinu
  • Að undirbúa þær undir keppni á vegum FSÍ

Fjöldi æfinga

Iðkendur í 5.þrepi æfa að jafnaði 8 klukkustundir á viku, tvær klukkustundir í senn. Iðkendum er raðað í hópa eftir aldri og getu og miðast er við að hafa 12-16 iðkendur á hvern aðalþjálfara.

4.ÞREP

Um þrepið

4. Þrep Íslenska fimleikastigans er keppnisþrep tvö í röðinni sem keppt er í á mótum Fimleikasambands Íslands. Þrepið byggist upp á næsta stigi grunnæfinga og er stigvaxandi erfiðleiki frá því sem keppt var í 5. Þrepi. Í 4. Þrepi er meira um val á milli æfinga eða val um æfingar úr COP fyrir þjálfara til að undirstrika styrkleika fimleikastúlkunnar þá sérstaklega á stökki og jafnvægisslá. Val á milli æfinga er gert til þess að fleiri fimleikastúlkur eigi möguleika á að færa sig upp keppnisþrepin á þeirra forsendum og þeirra hraða. Áhaldafimleikar er einstaklingsmiðuð íþrótt og er því mikilvægt að hafa val um æfingar sem henta hverri fimleikastúlku fyrir sig.

Tækninefnd kvenna gaf út fyrir fimleikastigann og ákveðin stigalágmörk til að ná þrepi, stigalágmörkin fyrir 4. Þrep er 56,00 stig.

Helstu markmið

  • Að auka styrk, þol og liðleika fimleikastúlkunnar
  • Að auka þekkingu og færni þeirra á grunnæfingum fimleika
  • Að bæta við erfiðleika og flóknari æfingum ofaná grunninn
  • Að auka sjálfstraust þeirra og keppnisreynslu úti á keppnisgólfinu

Fjöldi æfinga

Iðkendur í 4.þrepi æfa að jafnaði 9-12 klukkustundir á viku, tvær til þrjár klukkustundir í senn. Iðkendum er raðað í hópa eftir aldri og getu og miðast er við að hafa 12-16 iðkendur á hvern aðalþjálfara.

3.ÞREP

Um þrepið

3. Þrep Íslenska fimleikastigans er keppnisþrep þrjú í röðinni sem keppt er í á mótum Fimleikasambands Íslands. Þrepið byggist upp á næsta stigi grunnæfinga og er stigvaxandi erfiðleiki frá því sem keppt var í í 4. Þrepi. Í 3. Þrepi er meira um val á milli æfinga eða val um æfingar úr COP fyrir þjálfara til að undirstrika styrkleika fimleikastúlkunnar á öllum áhöldum. Val á milli æfinga er gert til þess að fleiri fimleikastúlkur eigi möguleika á að færa sig upp keppnisþrepin á þeirra forsendum og þeirra hraða. Áhaldafimleikar eru einstaklingsmiðuð íþrótt og er því mikilvægt að hafa val um æfingar sem henta hverri fimleikastúlku fyrir sig.

Tækninefnd kvenna gaf út fyrir fimleikastigann 2017-2020 og ákveðin stigalágmörk til að ná þrepi, stigalágmörkin fyrir 3. Þrep er 54,00 stig.

Helstu markmið

  • Að auka styrk, þol og liðleika fimleikastúlkunnar
  • Að auka þekkingu og færni þeirra á grunnæfingum og flóknari æfingum fimleika
  • Að auka sjálfstraust þeirra og keppnisreynslu úti á keppnisgólfinu
  • Að undirbúa þær undir keppni í frjálsum æfingum

Fjöldi æfinga

Iðkendur í 3.þrepi æfa að jafnaði 12-15 klukkustundir á viku, tvær til þrjár klukkustundir í senn. Iðkendum er raðað í hópa eftir aldri og getu og miðast er við að hafa 12-16 iðkendur á hvern aðalþjálfara.

2.ÞREP

Um þrepið

2. Þrep Íslenska fimleikastigans er keppnisþrep fjögur í röðinni sem keppt er í á mótum Fimleikasambands Íslands. Þrepið byggist upp á næsta stigi grunnæfinga og er stigvaxandi erfiðleiki frá því sem keppt var í í 3. Þrepi. 2. Þrep er byggt upp sem léttari útgáfa af frjálsum æfingum sem styðjast við reglur FIG. í 2. Þrepi er val æfinga alfarið í höndum þjálfara sem vinna eftir fyrirfram ákveðnum sérkröfum sem þarf að uppfylla, en val fimleikaæfinga er alfarið til að undirstrika styrkleika fimleikastúlkunnar innan þessa ramma á öllum áhöldum. Val á milli æfinga er gert til þess að fleiri fimleikastúlkur eigi möguleika á að færa sig upp keppnisþrepin á þeirra forsendum og þeirra hraða. Áhaldafimleikar eru einstaklingsmiðuð íþrótt og er því mikilvægt að hafa val um æfingar sem henta hverri fimleikastúlku fyrir sig.

Tækninefnd kvenna gaf út fyrir fimleikastigann ákveðin stigalágmörk til að ná þrepi, stigalágmörkin fyrir 2. Þrep er 52,00 stig.

Helstu markmið

  • Að auka styrk, þol og liðleika fimleikastúlkunnar
  • Að auka þekkingu og færni þeirra á grunnæfingum fimleika
  • Að auka sjálfstraust þeirra og keppnisreynslu úti á keppnisgólfinu
  • Að undirbúa þær undir keppni í frjálsum æfingum

Fjöldi æfinga

Iðkendur í 2.þrepi æfa að jafnaði 12-15 klukkustundir á viku, þrjár til fjórar klukkustundir í senn. Iðkendum er raðað í hópa eftir aldri og getu og miðast er við að hafa 10 iðkendur á hvern aðalþjálfara.

1.ÞREP OG FRJÁLSAR

Um þrepið

1. Þrep Íslenska fimleikastigans er keppnisþrep fimm í röðinni sem keppt er í á mótum Fimleikasambands Íslands. Þrepið byggist upp á næsta stigi grunnæfinga og er stigvaxandi erfiðleiki frá því sem keppt var í í 2. Þrepi. 1. Þrep er byggt upp sem léttari útgáfa af frjálsum æfingum sem styðjast við reglur FIG. í 1. Þrepi er val æfinga alfarið í höndum þjálfara sem vinna eftir fyrirfram ákveðnum sérkröfum sem þarf að uppfylla, en val fimleikaæfinga er alfarið til að undirstrika styrkleika fimleikastúlkunnar innan þessa ramma á öllum áhöldum. Val á milli æfinga er gert til þess að fleiri fimleikastúlkur eigi möguleika á að færa sig upp keppnisþrepin á þeirra forsendum og þeirra hraða. Áhaldafimleikar er einstaklingsmiðuð íþrótt og er því mikilvægt að hafa val um æfingar sem henta hverri fimleikastúlku fyrir sig.

Tækninefnd kvenna gaf út fyrir fimleikastigann og ákveðin stigalágmörk til að ná þrepi, stigalágmörkin fyrir 1. Þrep er 50,00 stig. En keppandi getur keppt áfram í þrepinu þó svo að lágmörkum hafi verið náð ef keppandi er ekki tilbúinn að keppa í frjálsum æfingum.

Frjálsar æfingar er efsta keppnisstig í áhaldafimleikum kvenna. Keppt er í þrem flokkum stúlknaflokki, unglingaflokki og kvennaflokki, að undantekningu á Íslandsmóti er stúlkna- og unglingaflokkur sameinaður og keppt um Íslandsmeistara unglinga og kvenna. Eins og í efstu tveimur þrepunum er val æfinga innan þessa fyrirfram ákveðna ramma sem settur er af FIG, um sérkröfur á hverju áhaldi fyrir sig. Þjálfarar setja síðan upp hina fullkomnu æfingu fimleikastúlkunnar sem undirstrikar hennar styrkleika og svo hún nái sem hæstri upphafseinkunn. Á öllum áhöldum fyrir utan stökkið eru 7 erfiðustu æfingarnar taldar ásamt afstökki sem mynda upphafseinkunn og er lagt saman við þær sérkröfur og samtengingar sem fimleikastúlkan uppfyllir. Þegar komið er á þetta stig er ekki hægt að ná ákveðnum stigum, hér er keppst við að hækka upphafseinkunn sína á hverju áhaldi fyrir sig með því að bæta erfiðleika við æfingar sínar ásamt því að ná að uppfylla sérkröfur og bæta við samtengingum.

Helstu markmið

  • Að auka styrk, þol og liðleika fimleikastúlkunnar
  • Að auka þekkingu og færni þeirra á grunnæfingum fimleika
  • Að auka sjálfstraust þeirra úti á keppnisgólfinu
  • Að undirbúa þær undir keppni í frjálsum æfingum
  • Að öðlast keppnisreynslu innanlands sem utan

Fjöldi æfinga

Iðkendur í 1.þrepi-frjálsar æfingar æfa að jafnaði 12-18 klukkustundir á viku, þrjár til fjórar klukkustundir í senn. Iðkendum er raðað í hópa eftir aldri og getu og miðast er við að hafa 8-10 iðkendur á hvern aðalþjálfara.

Hraðferð

Í áhaldadeild kvenna og karla eru hraðferðarhópar. Það eru hópar sem eru ekki hengdir á neitt ákveðið þrep. Iðkendur eru valdir í hraðferðarhópa og tímafjöldi á milli 12 og 18 tímar á viku eftir því hvar hópurinn er staddur.

Iðkendasamningur

Iðkendur í meistaraflokkum félagsins gefst kostur á að sækja um iðkendasamning á hverju hausti. Hann inniheldur samkomulag á milli félagsins og iðkandans um ákveðin atriði og getur þá iðkandinn fengið afslátt af æfingagjöldum eða þau niðurfelld að fullu. Það er gert til að koma til móts við mikinn kostnað sem hlýst vegna æfinga- og keppnisferða.

Fimleikafatnaðurinn fæst í afgreiðslu Gerplu.

Keppnisfatnaður 5., 4. og 3. Þreps

Keppt er í svörtum og rauðum fimleikabol. Hægt er að kaupa keppnisfatnað í Gerplubúðinni, Versölum 3 eða í vefverslun gerplubudin.is

Utanyfirgalli félagsins