fbpx

Áhaldafimleikadeild karla

UM GREININAÞREPINKEPPNISFATNAÐUR

ÁHALDAFIMLEIKAR KARLA

Áhaldafimleikar karla er einstaklingsíþrótt þar sem einstaklingurinn þarf að tileinka sér sjálfstæði og aga í vinnubrögðum sínum til að ná árangri. Íþróttin er líkamlega mjög krefjandi en einnig þarf tenging hugar og líkamsvitundar að vera góð til að einstaklingurinn geti byggt upp og sett saman flóknar æfingar. Nákvæmni og einbeiting er meðal lykilþátta við iðkun fimleika þar sem æfingar eru framkvæmdar við krefjandi aðstæður. Í áhaldafimleikum karla er keppt á 6 mismunandi áhöldum, gólfi, bogahesti, hringjum, stökki, tvíslá og svifrá en hvert áhald hefur sýna sérstöðu.

Gólfæfingar

Fimleikamaðurinn framkvæmir stökk og fimleikaæfingar á gólfinu sem sýna liðleika hans, styrk og jafnvægi. Hin hefðbundna gólfæfing er á bilinu 60-70 sekúndna löng. Þær kröfur eru gerðar til fimleikamannsins að hann nýti gólfflötinn og hafi viðkomu í hverju horni áhaldagólfsins.

Bogahestur

Á bogahesti sýnir fimleikamaðurinn skærasveiflur og hringsveiflur. Hringsveiflur eru þó algengari en skærasveiflur og það má segja að hringsveiflur séu uppistaðan í æfingum á bogahesti. Fimleikamaðurinn sveiflar báðum fótum í hringi og gerir mismundandi æfingar á öllum hlutum bogahestsins. Hér reynir á styrk fimleikamannsins í öxlum, upphandleggjum og í baki. Bogahesturinn er talinn vera erfiðasta áhaldið í áhaldafimleikum karla ásamt æfingum í hringjum.

Hringir

Fimleikamaðurinn þarf að sýna fram á að hann búi yfir jafnvægi og styrk en einnig þarf hann að framkvæma kraftmiklar sveiflur án þess að hringirnir sveiflist fram og til baka. Fimleikamaðurinn sýnir styrk sinn í stöðum eins og vinkli, kross og flugvél. Að lokum þarf hann að gera afstökk sem þarf að vera í samræmi við erfiðleika æfinganna sem á undan komu.

Stökk

Fimleikamaðurinn hleypur 25 metra niður hlauparenning áður en hann stekkur á bretti og hoppar yfir hest. Vel heppnað stökk er undir því komið að fimleikamaðurinn hlaupi hratt og spyrni fast í brettið svo stökkið verði kraftmikið og hátt. Annar mikilvægur þáttur í stökkinu er rýmisvitund fimleikamannsinsins en hún gerir honum kleift að gera skrúfur og margföld heljarstökk eftir að spyrnt er frá stökkhestinum.

Tvíslá

Tvíslá karla krefst þess að fimleikamaðurinn sé sterkur í öxlum og upphandleggjum. Á tvíslánni framkvæmir fimleikamaðurinn æfingar sem sýna fram á samhæfingu hans , jafnvægi og styrk. Á tvíslá er þess krafist að fimleikamaðurinn geri æfingar sem sveifla undir ránni, í stuðning ofan á ránni og svo æfingar sem gerðar eru í upphandleggsstöðu.

Svifrá

Fimleikamaðurinn heldur í svifránna og framkvæmir svokallaða risasveiflur úr handstöðu. Kröfur eru gerðar um að fimleikamaðurinn geri flugæfingar þar sem hann sleppir ránni í æfingu og grípur aftur. Aðrar kröfur í æfingum á svifrá eru snúningar, skrúfur, að gerðar séu æfingar sem breyti um átt og æfingar þar sem mjaðmir eru nálægt ránni.
Afstökkið þarf að vera í samræmi við erfileika æfinganna sem á undan komu og gerðar eru kröfur um að fimleikamaðurinn lendi án þess að taka skref eða hopp.

Um þrepin

Myndbönd um keppnisæfingarnar má skoða hér 

Íslenski fimleikastiginn er gefinn út á fjögurra ára fresti og hefur sú útgáfa haldist í hendur við nýjar dómarareglur Alþjóðlega Fimleikasambandsins (FIG). Það er mikilvægt fyrir þjálfara og dómara að kynna sér vel innihald fimleikastigans sem og alþjóðlegar dómarareglur FIG en einnig getur verið mjög gagnlegt fyrir iðkendur og forráðamenn að kynna sér uppbyggingu og markmið stigans.
Fimleikastiginn er byggður upp sem keppnisæfingar í áhaldafimleikum en er ekki tæmandi yfir þær grunnæfingar sem nauðsynlegar eru í þjálfun fimleika. Íslenski fimleikastiginn (karla) var upphaflega í fjórum þrepum. Það fjórða var léttast og það fyrsta erfiðast. Árið 2007 bar bætt við 5.þrepi og 6.þrepi og er stiginn því nú sex stig samtals en eftir að hafa lokið keppni í stiganum taka við frjálsar æfingar. Fimm efstu þrepin eru ætluð til keppni á mótum FSÍ en lægsta þrepið (6.þrep) er ætluð til keppni á innanfélags- og vinamótum og til leiðbeiningar um uppbyggingu kennslu fimleikaæfinga í áhaldafimleikum.

Helstu markmið með fimleikastiganum

 • Að vera leiðbeinandi afl í fimleikum karla á Íslandi, bæði í vali á æfingum og samsetningum æfinga.
 • Að auka gæði íslenskra fimleika og auka breidd innan áhaldafimleikanna
 • Að skapa réttlátan samkeppnisgrunn í keppni í áhaldafimleikum.
 • Að það verði eðlilegur stigs munur á milli þrepa og það taki að meðaltali tvö ár að ná hverju þrepi.
 • Að undirbúa keppendur fyrir keppni í frjálsum æfingum.
 • Ef iðkandi hefur ekki náð þrepi á 24 mánuðum og nær því ekki að flytjast upp um þrep er mælt með að prufa hópfimleika og athuga hvort styrkleikar iðkandans liggi frekar þar.

Uppbygging einkunnar í þrepum & frjálsum æfingum

Einkunn í áhaldafimleikum í frjálsum æfingum byggist upp á tveimur einkunnum, D einkunn og E einkunn. D einkunn samanstendur af erfiðleikagildum, sérkröfum og bónusum fyrir samtengingar. E einkunn byrjar í 10,0 og frá henni dragast framkvæmdarvillur. Meðaltal E einkunna er fundið og lagt við D einkunn til að fá lokaeinkunn. D dómarar geta einnig starfað sem E dómarar.

Ítarlegri upplýsingar um fimleikastiga karla er að finna á eftirfarandi slóð: http://fimleikasamband.is/index.php/mot/ahaldafimleikar/islenski-fimleikastiginn

6.ÞREP

Um þrepið

6.þrep Íslenska fimleikastigans er undirbúningsþrep fyrir fyrsta stig í keppni á vegum Fimleikasambands Íslands. FSÍ gefur ekki út lágmarkskröfur um stigafjölda til að ná þessu þrepi heldur er það í höndum þjálfara og yfirþjálfara félaga að meta hvenær fimleikamaðurinn hefur náð nægilega góðum tökum á þeim grunnæfingum sem þrepið inniheldur. Einnig er gott að hafa náð góðum tökum á þeim æfingum sem næsta þrep fyrir ofan inniheldur og þá telst sjötta þrepinu “náð”.

Helstu markmið

 • Að auka styrk, þol og liðleika fimleikapiltsins
 • Að auka þekkingu og færni á grunnæfingum fimleika
 • Að auka sjálfstraust í keppni
 • Að undirbúa piltana fyrir keppni á vegum FSÍ

Fjöldi æfinga

Iðkendur í 6.þrepi æfa að jafnaði 6 klukkustundir á viku, eina og hálfa eða tvær klukkustundir í senn. Iðkendum er raðað í hópa eftir aldri og getu og reynt er að hafa ekki fleiri en 10-14 iðkendur á hvern þjálfara.

5.ÞREP

Um þrepið

5. Þrep Íslenska fimleikastigans er fyrsta keppnisþrepið sem keppt er í á mótum á vegum Fimleikasambands Íslands. Þrepið byggist upp á grunnæfingum, léttum samsetningum og samtengdum æfingum. Rík áhersla er lögð á grunnæfingar og að ná góðum tökum á þeim. 5. Þrepið er frábrugðið efri þrepunum þar sem valið er minna á milli æfinga þó eru nokkrar undantekningar, innihald þrepsins er byggt upp á þeim almennu grunnæfingum sem mikilvægt er fyrir piltana að tileinka sér.

Helstu markmið

 • Að auka styrk, þol og liðleika fimleikapiltsins
 • Að auka þekkingu og færni á grunnæfingum fimleika
 • Að auka sjálfstraust í keppni

Tækninefnd karla hefur ákveðið að lágmarkfjöldi stiga til að ná 5.þrepi séu 75 stig.

Fjöldi æfinga

Iðkendur í 5.þrepi æfa að jafnaði 8-10 klukkustundir á viku, tvær klukkustundir í senn.  Iðkendum er raðað í hópa eftir aldri og getu og miðast er við að hafa 10-14 iðkendur á hvern aðalþjálfara.

4.ÞREP

Um þrepið

4. Þrep Íslenska fimleikastigans er annað þrepið sem keppt er í á mótum Fimleikasambands Íslands. Þrepið byggir á æfingum sem kenndar voru í 5.þrepi en nú er bætt við erfiðari æfingum. Í 4. Þrepi eru bónusæfingar eða aukaæfingar algengar til þess að fjölbreyttari hópur af piltum geti tekið þátt í þrepinu og breiðari hópur af keppendum fái æfingar við hæfi.
Tækninefnd karla hefur ákveðið að lágmarks stigafjöldi til að ná 4.þrepi séu 75 stig.

Helstu markmið

 • Að auka styrk, þol og liðleika piltana
 • Að auka þekkingu og færni á grunnæfingum fimleika
 • Að auka sjálfstraust í keppni
 • Að undirbúa piltana undir keppni á vegum FSÍ

Fjöldi æfinga

Iðkendur í 4.þrepi æfa að jafnaði 10-12 klukkustundir á viku, tvær til þrjár klukkustundir í senn. Iðkendum er raðað í hópa eftir aldri og getu og miðast er við að hafa 10-12 iðkendur á hvern aðalþjálfara.

3.ÞREP

Um þrepið

3. Þrep Íslenska fimleikastigans er keppnisþrep þrjú í röðinni sem keppt er í á mótum Fimleikasambands Íslands. Þrepið byggir á grunni úr 5.og 4.þrepi en bætt hefur verið við erfiðari æfingum. Í 3. Þrepi er meira um val á milli æfinga eða val um æfingar og er notað til þess bónuskerfi eða bónusæfingar. Það er ekki skylda að framkvæma bónusæfingarnar en þær æfingar gefa auka stig.

Tækninefnd karla hefur ákveðið að lágmarkfjöldi stiga til að ná 3.þrepi séu 75 stig.

Helstu markmið

 • Að auka styrk, þol og liðleika piltanna
 • Að auka þekkingu og færni á grunnæfingum fimleika
 • Að auka sjálfstraust í keppni
 • Að undirbúa piltana í að keppa í frjálsum æfingum.

Fjöldi æfinga

Iðkendur í 3.þrepi æfa að jafnaði 12-15 klukkustundir á viku, tvær til þrjár klukkustundir í senn.  Iðkendum er raðað í hópa eftir aldri og getu og miðast er við að hafa 10-12 iðkendur á hvern aðalþjálfara.

2.- 1.ÞREP OG FRJÁLSAR ÆFINGAR

Um þrepin

Samsetning æfinganna eru frjálsar og því setja þjálfarar og keppendur æfingarnar saman miðað við getu fimleikamannsins. Gerðar eru kröfur um að fimleikamaðurinn sýni 8-10 æfingar úr 5 flokkum sem gefnar eru út í reglubók Alþjóða Fimleikasambandsins. Tugir æfinga eru í boði á hverju áhaldi en ekki má gera hverju æfingu nema einu sinni. Æfingarnar hafa erfiðleikagildi sem merkt er í bókstöfum. Æfingar merktar A flokki eru auðveldustu æfingarnar og gefa 0,1 stig en æfingar í H flokki eru þær erfiðustu og gefa 0,8 stig. Fimleikamaðurinn byrjar svo með frádráttareinkunn sem er 10,0 og lækkar hún í samræmi við hversu stílhrein æfingin er hjá fimleikamanninum. Ef hann fær 3,0 í mínus þá er frádráttareinkunnin 10,0-3,0 sem gera 7,0 ofan á leggst svo erfiðleikaæfingin en hún er háð því hversu mörg erfiðleikastig æfingarnar innihalda. Ef allar 10 æfingarnar væru H þá fengist 8 í erfiðleikaeinkunn og við hana bætist frádráttareinkunn 7 sem gera 15.00. Ef gerðar eru æfingar úr öllum 5 flokkunum þá fæst bónus 2,5 sem bætist við erfiðleika og frádráttareinkunn sem gera þá lokaeinkunn 17,5.

Helstu markmið

 • Að auka styrk, þol og liðleika
 • Að auka þekkingu og færni á grunnæfingum fimleika
 • Að framkvæma margar fjölbreyttar og flóknar æfingar á hverju áhaldi
 • Að öðlast keppnisreynslu innanlands sem utan

Fjöldi æfinga

Iðkendur í 2.þrepi-frjálsar æfingar æfa að jafnaði 15-18 klukkustundir á viku, þrjár til fjórar klukkustundir í senn. Iðkendum er raðað í hópa eftir aldri og getu og miðast er við að hafa 10 iðkendur á hvern aðalþjálfara.

Hraðferð

Í áhaldadeild kvenna og karla eru hraðferðarhópar. Það eru hópar sem eru ekki hengdir á neitt ákveðið þrep. Iðkendur eru valdir í hraðferðarhópa og er tímafjöldi á milli 12 og 18 tímar á viku eftir því hvar hópurinn er staddur.

Iðkendasamningur

Iðkendur í meistaraflokkum félagsins gefst kostur á að sækja um iðkendasamning á hverju hausti. Hann inniheldur samkomulag á milli félagsins og iðkandans um ákveðin atriði og getur þá iðkandinn fengið afslátt af æfingagjöldum eða þau niðurfelld að fullu. Það er gert til að koma til móts við mikinn kostnað sem hlýst vegna æfinga- og keppnisferða.

Keppnisfatnaður Gerplu fæst í Gerplubúðinni, Versölum þú eða í vefverslun gerplubudin.is

Keppnisfatnaður

Keppt er í rauðum og svörtum fimleikabol, svörtum stuttum buxum, rauðum síðum buxum og hvítum sokkum.


Utanyfirgalli félagsins