Hópfimleikadeild

UM GREININAKEPPNISFLOKKARKEPPNISFATNAÐURÆFINGAGJÖLD

HÓPFIMLEIKAR

Hópfimleikar eru hópíþrótt sem samanstendur af 8-12/14 manna liði (14 í yngri flokkum). Liðin eru annaðhvort samsett sem kvennalið, karlalið eða blandað lið en þá eru jafnmargir af hvoru kyni í liðinu. Íþróttin er samblanda af líkamlega krefjandi æfingum og sterkri liðsheild, en þessir tveir þættir eru lykillinn að góðum árangri. Tenging hugar og líkamsvitundar þarf að vera sterk til að einstaklingurinn geti byggt upp og sett saman flóknar æfingar sem framkvæmdar eru á nokkrum sekúndum. Fimleikar eru mikil nákvæmis íþrótt þar sem æfingar eru framkvæmdar í krefjandi aðstæðum og því mikilvægt að iðkandinn tileinki sér einbeitingu og aga í vinnubrögðum sínum. Keppt er á þremur mismunandi áhöldum, trampólíni, dýnustökki og gólfæfingum en hvert áhald hefur sýna sérstöðu.

 

Trampólín

Á trampólíni gerir hvert lið þrjár umferðir og þarf ein af þeim að vera með stökki yfir hest. Hér reynir á snerpu, styrk og samhæfingu fimleikamannsins, er hann þarf að ná hraða úr tilhlaupi sínu til að ná sem mestum sprengikrafti úr trampólíninu og inn í fimleikastökkið. Í loftinu framkvæmir fimleikamaðurinn svo mismunandi útfærslur af heljarstökkum með skrúfum sem stigmagnast eftir því sem færni fimleikamannsins eykst.

 

 

 

Dýnustökk

Á dýnustökki líkt og trampólíninu gerir hvert lið þrjár umferðir en fimleikamennirnir þurfa að framkvæma bæði stökk fram á við og aftur á bak. Hver umferð saman stendur af tengingu nokkurra fimleikaæfinga sem verða flóknari með aukinni færni fimleikamannsins. Samhæfing, sprengikraftur og styrkur eru lykilþættir í árangri í dýnustökkum.

 

 

Gólfæfingar

Oft er talað um að gólfæfingar séu ákveðið mótvægi á móti kraftinum og styrknum sem hin tvö áhöldin krefjast af fimleikamanninum. Mjúkar hreyfingar, fallegar línur, liðleiki, jafnvægi og hopp einkenna gólfæfingarnar þar sem allir liðsmenn framkvæma æfingarnar í takt líkt og í raun aðeins einn  maður væri úti á gólfinu. Liðið þarf að færast um gólfflötinn og mynda mismunandi mynstur á meðan það framkvæmir æfinguna sem krefst mikillar samvinnu allra fimleikamannanna.

 

Um keppnisflokkana

Í meistaraflokki og 1.flokki mega vera 8-12 einstaklingar í hverju liði. Tíu inná gólfi og tveir varamenn.  Sex liðsmenn keppa í hverri umferð á trampólíni og dýnustökki og má skipta þeim út svo lengi sem þeir eru meðal þeirra 8-10 liðsmanna sem taka þátt í gólfæfingunum. Í yngri flokkunum mega vera 8-14 liðsmenn í hverju liði og allt að 12 liðsmenn taka þátt í hverri umferð á trampólíni og dýnu og allt að 12 liðsmenn sem taka þátt í gólfæfingunum.  Það má skipta um liðsmenn innan þessara 14 á milli áhalda þannig að til dæmis dansa 12 liðsmenn en svo er tveimur skipt út fyrir æfingar á trampólíni.  

Flokkarnir í hópfimleikum eru aldursflokkar en þó er alltaf heimilt að keppa uppfyrir sig í aldri. Lágmarsksaldur til að taka þátt á mótum FSÍ er 9 ára.  

 • Meistaraflokkur – 16 ára og eldri
 • 1.flokkur – 13-17 ára
 • 2.flokkur – 14-15 ára
 • 3.flokkur – 12-13 ára  
 • 4.flokkur – 10-11 ára
 • 5.flokkur – 9 ára*

* ekki keppt um sæti. Allir fá þátttökuverðlaun.

Helstu markmið með keppnisflokkum

 • Reglur í yngri flokkum 5.flokks – 2.flokks eru leiðbeinandi með hvaða atriði skuli lagt áherslu á.
 • Að auka gæði í hópfimleikum á Íslandi.
 • Að skapa réttlátan samkeppnisgrundvöll í keppni til dæmis með A- , B- og C-deildum innan keppnisflokka.
 • Að það sé eðlilegur stigsmunur á milli flokka og að keppendur séu tvö ár í hverjum flokki að 5.flokki undanskildum.
 • Að undirbúa keppendur fyrir keppni í 1. flokki og meistarasflokki.

Uppbygging einkunnar

Einkunn byggist upp á þremur einkunnum, D einkunn, C- einkunn og E einkunn.

D einkunn samanstendur af erfiðleikagildum í stökkum og fimleikaæfingum í gólfæfingu. E einkunn byrjar í 10,00 og frá henni dragast framkvæmdarvillur.  C- einkunn er samsetningareinkunn en áhöldin gera mismunandi kröfur með innihald í æfingunum.  Meðaltal E einkunna er fundið og lagt við D og C einkunn til þess að fá lokaeinkunn. Lokaeinkunn er reiknuð með tveimur aukastöfum.

Dýna og trampólín

D- erfiðleiki opinn
C- samsetning dregið frá 2,0
E- framkvæmd dregið frá 10,0

Gólfæfingar

D- erfiðleiki opinn
C- samsetning dregið frá 4,0
E- framkvæmd dregið frá 10,0

 

5.FLOKKUR
4.FLOKKUR
3.FLOKKUR
2.FLOKKUR
1.FLOKKUR
MEISTARAFLOKKUR

Fimleikafatnaðurinn fæst í afgreiðslu Gerplu.

Keppnisfatnaður 5. og 4. Flokks

Keppt er í hvítum og rauðum fimleikabol og svörtum síðum leggings.

Keppnisfatnaður 1., 2., 3. Flokks

Keppt er í rauðum og svörtum dansgalla.

Mynd af keppnisfatnaði

Utanyfirgalli félagsins

Adidasgalli: svartar buxur og rauð heilrennd peysa.

Æfingagjöld

Æfingagjöld fyrir vorönn  ( 3.jan til 30.júní 2018)

Til þess að plássið sem úthlutað hefur verið sé tryggt þá þarf að ganga frá greiðslu æfingagjalda fyrir 20.janúar. Ganga þarf frá greiðslu æfingagjalda á greiðslusíðu Gerplu. Ef iðkandi hefur ekki áhuga á að halda plássinu sínu þarf að senda formlega uppsögn á heidur@gerpla.is og er það á ábyrgð forráðamanna. Uppsögnin tekur gildi frá næstu mánaðarmótum frá því að hún er móttekin. Ef ekki er gengið frá æfingagjöldum fyrir tilsetta dagsetningu hér að ofan áskilur Gerpla sér rétt til að setja æfingagjöldin á einn greiðsluseðil og bætast þá við seðilgjald og/eða  annar umsýslukostnaður ef bakfæra þarf reikninginn.

Inni á greiðslusíðu Gerplu er hægt er að greiða með greiðslukorti eða með greiðsluseðlum. Hægt er að skipta niður í allt að fimm greiðslur. Á greiðsluseðlum bætast við greiðslu og umsýslugjöld en engin gjöld eru innheimt vegna greiðslukorta. Verðskrá er að finna hér í tengli að ofan.

Frístundastyrkir

Hægt er að nýta frístundastyrk sveitarfélaganna til lækkunar á æfingagjöldum.

Leiðbeiningar varðandi Kópavogsbæ er að finna hér.

Leiðbeiningar varðandi Reykjavík er að finna hér. Við minnum forráðamenn á að það þarf að kalla fram frístundastyrkinn í greiðslukerfinu hjá Gerplu eftir að honum hefur verið úthlutað.

Varðandi upplýsingar um fyrirkomulag hjá öðrum sveitarfélögum þá er hægt að hafa samband við afgreiðslu Gerplu.

Afsláttur

Starfsmenn Gerplu setja inn fjölskylduafslátt og verður hann komin inn í kerfið fyrir 3.janúar. Athugið að það er handvirk færsla og því geta komið tilfelli þar sem vantar afsláttinn og þá óskum við eftir því að haft verði samband við afgreiðslu Gerplu svo hægt sé að lagfæra það. Mikilvægt er að það sé gert áður en gengið er frá greiðslunni.