Grunn –og framhaldshópar Gerplu er upphaf fimleikaiðkunar hjá félaginu. Hér byrjum við að telja hversu lengi börnin hafa æft fimleika. Í grunn –og framhaldshópum félagsins fer fram hin eiginlega innleiðing á grunnæfingum fimleika, þó svo að iðkandi verði aldrei fullnuma á þær æfingar, alltaf er hægt að betrumbæta æfingarnar. Helstu markmið í grunn– og framhaldshópum félagsins
- Að auka styrk, þol og liðleika iðkandans
- Að auka þekkingu og færni þeirra á grunnæfingum fimleika
- Að auka sjálfstraust þeirra á fimleikagólfinu
- Að undirbúa iðkendur undir keppni á vegum FSÍ
Grunnhópar
Íslenski fimleikastiginn er gefinn út á fjögurra ára fresti og hefur sú útgáfa haldist í hendur við nýjar dómarareglur Alþjóðlega Fimleikasambandsins (FIG). Það er mikilvægt fyrir þjálfara og dómara að kynna sér vel innihald fimleikastigans sem og alþjóðlegar dómarareglur FIG en einnig getur verið mjög gagnlegt fyrir iðkendur og forráðamenn að kynna sér uppbyggingu og markmið stigans. Fimleikastiginn er byggður upp sem keppnisæfingar í áhaldafimleikum en er ekki tæmandi yfir þær grunnæfingar sem nauðsynlegar eru í þjálfun fimleika. Fimm efstu þrepin eru ætluð til keppni á mótum FSÍ.
Stúlkur
Fimleikastiginn er byggður upp á átta þrepum ætluðum til æfinga og keppni í áhaldafimleikum kvenna. Lægstu þrjú þrepin eru ætluð til keppni á innanfélags- og vinamótum og til leiðbeiningar um uppbyggingu kennslu fimleikaæfinga í áhaldafimleikum. Neðstu þrepin, 7. og 8. þrep, ásamt sérútbúnu 9. þrepi sem Gerpla lét útfæra fyrir grunnhópa 1x í viku eru ætluð til notkunar innanfélags sem viðmið fyrir einfaldar samsettar grunnæfingar þar sem hver er að keppa við sjálfan sig og er stigagjöfin einfalt matskerfi.
Drengir
Fimleikastiginn er byggður upp á sex þrepum ætluðum til æfinga og keppni í áhaldafimleikum karla. 6. þrepið er ætlað til keppni á innanfélags- og vinamótum og til leiðbeiningar um uppbyggingu kennslu fimleikaæfinga í áhaldafimleikum. 6. þrep létt er síðan undirbúningsþrep fyrir 6. þrep. Gerpla lét útfæra grunnþrep fyrir grunnhópa drengja 1x og 2x í viku. Þessi þrep eru ætluð til notkunar innanfélags sem viðmið fyrir einfaldar samsettar grunnæfingar þar sem hver er að keppa við sjálfan sig og er stigagjöfin einfalt matskerfi.
Grunnhópar 1x í viku | Grunnhópar 2x í viku | |
Stúlkur | 9. þrep | 8. þrep |
Drengir | Grunnþrep 1 | Grunnþrep 2 |
Framhaldshópar
Framhaldshópar 2x í viku | |
---|---|
Stúlkur | 7. þrep |
Drengir | 6. þrep undirbúningur |
Eftir þetta stig þá er iðkendum leiðbeint áfram eftir því hvar þeirra áhugasvið og styrkleiki liggur. Um þrjár mismunandi leiðir er að ræða. Keppnisdeild í áhaldafimleikum, keppnisdeild í hópfimleikum og almenna fimleika og hópa sem heita fimleikar fyrir alla þar sem ekki er lögð áhersla á keppni heldur er megináherslan að iðka fimleika sem heilsurækt og taka þátt í sýningum.
Hraðferð
Hraðferðarhópar eru í boði fyrir þá einstaklinga sem eru tilbúnir andlega og líkamlega að fara hraðar í gegnum æfingar. Sumir einstaklingar eru tilbúnir í hraðari yfirferð og flóknari æfingar og geta þá valist í þann hóp. Ef barnið þitt er valið í hraðferðarhóp þá er engin skylda að þiggja plássið og heldur þá iðkandinn áfram í venjubundinni yfirferð. Þess ber að geta að meiri kröfur eru gerðar til barna sem fara í hraðferð til að hægt sé að fara hraðar yfir. Í hraðferðarhópum eru börn í 1. og 2. bekk grunnskóla og getur aldurinn verið blandaður innan hópsins. Hraðferðarhópar eru fáir og því lítið svigrúm til breytinga. Eftir 2.bekk þá er iðkendum leiðbeint áfram eftir því hvar þeirra áhugasvið og styrkleiki liggur. Um þrjár mismunandi leiðir er að ræða. Keppnisdeild í áhaldafimleikum, keppnisdeild í hópfimleikum og almenna fimleika og hópa sem heita fimleikar fyrir alla þar sem ekki er lögð áhersla á keppni heldur er megináherslan að iðka fimleika sem heilsurækt og taka þátt í sýningum.
Æfingafatnaður
Almennur íþróttaklæðnaður, stuttbuxur og stuttermabolur sem passa. Fimleikabolur og teygja í hárið. Hægt er að kaupa allskonar æfingafatnað í Gerplubúðinni
Æfingagjöld
Æfingagjöld fyrir haustönn má finna HÉR
Til þess að plássið sem úthlutað hefur verið sé tryggt þá þarf að ganga frá greiðslu við skráningu. Ganga þarf frá skráningu og greiðslu æfingagjalda á greiðslusíðu Gerplu. Ef iðkandi hefur ekki áhuga á að halda plássinu sínu þarf að senda formlega uppsögn á ragnarmagnus@gerpla.is og er það á ábyrgð forráðamanna. Uppsögnin tekur gildi frá næstu mánaðarmótum frá því að hún er móttekin.
Inni á greiðslusíðu Gerplu er hægt er að greiða með greiðslukorti eða með greiðsluseðlum. Hægt er að skipta niður í allt að fjórar greiðslur. Á greiðsluseðlum bætast við greiðslu og umsýslugjöld en engin gjöld eru innheimt vegna greiðslukorta. Verðskrá er að finna hér í tengli að ofan.
Frístundastyrkir
Hægt er að nýta frístundastyrk sveitarfélaganna til lækkunar á æfingagjöldum.
Vinsamlegast hakið við í viðeigandi reit í greiðsluferlinu. Æfingagjöldin lækka þá sjálfkrafa um leið.