fbpx

Fimleikaveisla í höllinni framundan

Það er stór helgi framundan í fimleikum á Íslandi þegar Íslandsmótin í hópfimleikum og áhaldafimleikum fara fram í höllinni. Keppnin hefst á morgun fimmtudag klukkan 19:15 þegar fremstu hópfimleikalið landsins etja kappi en Gerpla teflir fram tveimur kvennaliðum og einu karlaliði. Karla og kvennalið Gerplu hafa titil að verja og munu gera sitt til að reyna að verja þá.

Á laugardaginn hefst svo keppni í áhaldafimleikum en keppt verður í fjölþraut kvenna, karla og unglinga. Gerpla á þrjá Íslandsmeistara frá síðasta tímabili þá Valgarð, Martin Bjarna og Sonju Margréti. Þau munu reyna að verja titlana sína frá í fyrra en Sonja Margrét keppir núna í fullorðinsflokki en hún sigraði unglingaflokkinn í fyrra. Gerpla sendir heilan her af frábæru fimleikafólki til keppni í öllum flokkum og má búast við mjög spennandi keppni. Á sunnudaginn verður svo keppt til úrslita á einstökum áhöldum.
Mótið hefst klukkan 13:15 á laugardaginn en klukkan 14:30 á sunnudaginn. Við hvetjum alla til að mæta í höllina og styðja við bakið á flottasta fimleikafólki landsins. Það ætti enginn að láta þessa veislu framhjá sér fara.

Gerpla kemur að Íslandsmótinu með myndarlegum hætti og ætlar Gerplufólk að sameinast til að gera þessa veislu sem flottasta. Ef þú getur lagt okkur lið þá þiggjum við það með þökkum en hægt er að skrá sig til þátttöku inná þessari slóð. Allar hendur gera gagn en við verðum með góða verkstjóra sem finna verkefni fyrir alla 🙂

Ég vil aðstoða – Íslandsmót 2018

Við hlökkum til að sjá ykkur um helgina!

ÁFRAM GERPLA!

 

Íslandsmeistarar 2017- hverjir hreppa titlana 2018?

 

 

You may also like...