fbpx

Norður Evrópumót 2021

Gerplufólk í landsliðum Íslands í áhaldafimleikum stóð sig vel á Norður Evrópumóti í Wales en mótið fór fram núna um helgina. Jónas Ingi Þórisson náði bestum árangri íslensku keppendanna en hann vann sig inn í úrslit á þremur áhöldum. Hann gerði sér lítið fyrir og vann brons í æfingum á gólfi en hann sýndi mjög flottar gólfæfingar tvo daga í röð. Hann skoraði 13,9 í undanúrslitum og svo 13,75 stig í úrslitum en einkunnir lágu lægra í úrslitum. Jónas endaði svo í 6. sæti á stökki og 7. sæti á svifrá.

Valgarð Reinhardsson komst í úrslit á tvíslá og var hæstur í fjölþrautinni af Íslensku strákunum, var við sitt besta og skoraði 77,1 stig og var jafn í 9. sæti af 57 keppendum frá tíu þjóðum. Hann endaði í 4. sæti á tvíslá og rétt missti af 3. sætinu með 12,75 en aðeins vantaði 0,2 uppá þriðja sætið.

Martin Bjarni Guðmundsson endaði 31. sæti í fjölþrautinni eftir stór mistök á tvíslá en komst í úrslit á svifrá og endaði í 6.sæti.

Dagur Kári Ólafsson varð í 25. sæti í fjölþraut en þetta var fyrsta mótið sem hann keppir í fullorðinsflokki. Hann átti góðan séns á úrslitum og verðlaunum á bogahesti enda með keppnisseríu í miklum gæðafokki en hann datt í undanúrslitum og komst því ekki áfram í úrslitin. Hann tekur það með sér í reynslubankann enda rétt að byrja.

Hildur Maja Guðmundsdóttir keppti vel á sínu fyrsta Norður Evrópumóti og endaði í 18. sæti af 45 keppendum með 46,350 stig en það er hennar besta skor á tímabilinu. Hún var alveg við úrslit á bæði jafnvægisslá og gólfæfingum og var fyrsti varamaður inná bæði áhöldin. Hún var með 11,9 á jafnvægisslá og 11,8 fyrir gólfæfingar.

Kristín Sara Jónsdóttir var einnig að keppa á sínu fyrsta Norður Evrópumóti og stóð sig vel. Hún endaði í 30. sæti í fjölþraut með samtals 42,25 stig.

Reynslukonan Agnes Suto tók bolinn fram að nýju og keppti á þremur áhöldum til að hjálpa í liðakeppninni. Hún var glæsileg að vanda en var ekki nálægt úrslitum að þessu sinni.

Íslensku liðin enduðu bæði í 5. sæti í liðakeppninni og eru staðráðin í að láta til sín taka á Norður Evrópumótinu að ári en þá mun mótið fara fram í Finnlandi.

Mótið gekk vel og var skemmtileg stemmning í höllinni. Með í för voru þjálfararnir Róbert og Viktor Kristmannssynir, Davíð Ingason og Auður Ólafsdóttir (deildarstjóri) sinntu dómarastörfum.

You may also like...