fbpx

Mótaröð 1 í hópfimleikum

Fyrsta mót tímabilsins hjá eldri flokkum í hópfimleikum, fór fram síðasta laugardag, 28. október í fimleikasal okkar Vatnsenda. Það var mótaraða mót en það er nýtt fyrirkomulag síðan í fyrra þar sem mótum FSÍ var fjölgað um þrjú mót og þar er keppt með aðeins mýkri lendingadýnu en hefðbundið er.

Á þessum mótaraðamótum keppa öll lið á móti hvoru öðru, óháð flokkum og kynjum. Gerpla sendi 4 lið til keppni, tvö kvennalið úr meistaraflokki og tvö úr 1. flokki (eitt kvennalið og eitt blandað lið) og náðu liðin þeim flotta árangri að lenda í efstu fjórum sætunum.

Við erum einstaklega stollt af þeim árangri, keppnisgleði og baráttuanda sem skein af Gerplu liðunum þennan dag. Þau eru að standa sig ótrúlega vel í vinnu bæði innan og utan salarins sem verður til þess að öll eru liðin að uppskera.

Vert er að nefna að meistaraflokkur var með tvö lið í keppni í fyrsta skipti til fjölda ára hér í Gerplu. Stærð meistaraflokksins þetta tímabilið er ótrúleg og fimleikagetan eftir því. Gríðarlega merkilegt er að liðin hafi landað fyrstu tveimur sætunum á þessu móti. Lið 1 í meistaraflokki er að fara að keppa á Norðurlandamóti þann 11.nóvember og var mótið mikilvægur undirbúningur fyrir það mót.

Við erum gífurlega stollt af okkar iðkendum og þjálfurum og óskum þeim innilega til hamingju með fyrsta mót vetrarins. Þetta var góð byrjun á stóru keppnistímabili og við förum full tilhlökkunar inn í fimleikaveturinn ‘23-‘24.

Fleiri myndir: https://gerpla.smugmug.com/2023/Motarod-1/

You may also like...