fbpx

Bikarmót í áhaldafimeikum

Um helgina fór fram Bikarmótið í áhaldafimleikum. Mótið var haldið hjá okkur í Versölum og keppt var í frjálsum æfingum og 1. – 3. þrepi karla og kvenna.

Þetta var fyrsta mótið í heilt ár hjá keppendum okkar í frjálsum æfingum. Það var mikil eftirvænting hjá okkar fólki að komast út á gólfið að keppa. Gerpla sendi 2 lið í frjálsum æfingum karla. Frábær árangur hjá báðum liðum um helgina, þeir settu á svið þvílíka fimleikaveislu og fékk sigurliðið okkar hæstu einkunn sem gefin hefur verið í samanlögðu skori. Þetta er fimmta árið í röð sem strákarnir sigra Bikarmótið. Valgarð Reinhardsson varð síðan stigahæstur af strákunum í fjölþraut en fast á hæla hans kom Jónas Ingi Þórisson Gerplu. Það verður hörð keppni í fullorðinsflokki karla á Íslandsmótinu eftir 3 vikur.

Kvennalið Gerplu átti fínan dag og veittu Bjarkarstúlkum harða samkeppni allt mótið en því miður náðu þær ekki að landa sigrinum að þessu sinni en 2. sætið áttu þær öruggt. Stigahæst í fjölþraut á mótinu varð Hildur Maja Guðmundsdóttir sem er nýlega komin í fullorðinsflokk.

Að þessu sinni áttum við ekki lið í 1. þrepi kvenna né í 1.-2. þrepi karla. Selma Bjarkadóttir í 1. þrepi átti frábæran dag og varð í 2. sæti í fjölþraut.

Við sendum eitt lið til keppni í 2. þrepi kvenna og þar sigruðum við örugglega eftir frábæran keppnisdag hjá stúlkunum, virkilega flott frammistaða hjá þeim öllum. Stigahæst í fjölþraut varð Kristjana Ósk Ólafsdóttir.

Í 3. þrepi karla og kvenna sendum við 2 lið til keppni. Piltarnir komu sáu og sigruðu með yfirburðum. Lið 2 hafnaði svo í 4. sæti. Stúlkurnar áttu ágætis dag og höfnuðu liðin í 6. sæti og 8. sæti. Stigahæstur í 3. þrepi karla varð Atli Elvarsson.

Þá hefst undirbúningur fyrir Íslandsmótin sem haldin verða núna í mars.
Íslandsmótið í frjálsum æfingum verður haldið í Ármanni helgina 20.-21. mars þar sem keppt verður í fjölþraut og á einstökum áhöldum. Íslandsmótið í 1.-3. þrepi verður haldið í Fjölni helgina 27.-28. mars. Þar verður keppt í fjölþraut.

Innilegar hamingjuóskir með helgina keppendur, þjálfarar og foreldrar, við erum ótrúlega stolt af ykkur!

Áfram Gerpla!

You may also like...