fbpx

Valgarð íþróttamaður Kópavogs 2018

Uppskeruhátíð Kópavogs var haldin í húsakynnum GKG í gær 10.janúar 2018. Valgarð Reinhardsson fimleikamaður úr Gerplu var kosinn íþróttamaður Kópavogs fyrir árið 2018. Íþróttakona Kópavogs var valin Agla María Albertsdóttir fótboltakona úr Breiðabliki. Valgarð er vel að þessum titli kominn enda búinn að sýna frábæran árangur á liðnu ári og erum við í Gerplu ákaflega stolt af honum.
Valgarð varð á liðnu ári Íslandsmeistari í fjölþraut á Íslandsmeistaramóti Fimleikasambandsins. Hann varð einnig Íslandsmeistari í fjórum greinum, á svifrá, í hringjum, á tvíslá og á gólfi. Valgarð var einn af burðarstólpunum í liði Gerplu sem sigraði  á Bikarmóti Fimleikasambands Íslands annað árið í röð. Á Norðurlandameistaramótinu hafnaði hann í 6. sæti í fjölþraut og í 2. sæti á tvíslá. Á Evrópumeistaramótinu í Glasgow komst Valgarð svo fyrstur Íslendinga í úrslit í stökki,  sem er frábær árangur hjá þessum unga fimleikamanni. Eftir harða keppni í úrslitum í stökki hafnaði hann að lokum í 8. sæti.

Agnes Suto Tuuha fimleikakona úr Gerplu var tilnefnd til íþróttakonu Kópavogs og fékk viðurkenningu á hátíðinni.

Í flokki 13-16 ára fengu þau Dagur Kári Ólafsson og Sonja Margrét Ólafsdóttir viðurkenningu fyrir frábæran árangur í fimleikum á árinu.

Landsliðsfólkið okkar í fullorðinsflokki fékk einnig viðurkenningu fyrir þátttöku á heimsmeistara- og eða Evrópumótum á árinu.

Alexander Sigurðsson, Eysteinn Máni Oddssn, Karitas Inga Jónsdóttir, Kristín Amalía Líndal, Margrét Lúðvigsdóttir, Sólveig Bergsdóttir og Valgerður Sigfinnsdóttir  fengu viðurkenningu fyrir þátttöku á Evrópumótinu í hópfimleikum.

Sonja Margrét Ólafsdóttir fékk viðurkenningu fyrir þátttöku á heimsmeistaramótinu í áhaldafimleikum.

Agnes Suto Tuuha, Eyþór Örn Baldursson, Thelma Aðalsteinsdóttir og Valgarð Reinhardsson fengu viðurkenningu fyrir þátttöku á Evrópu- og heimsmeistaramótinu í áhaldafimleikum.

Martin Bjarni Guðmundsson fékk viðurkenningu fyrir þátttöku á Ólympíuleikum ungmenna sem haldnir voru í Buenos Aires síðasta haust.

Gerpla er afar stolt af öllu sínu íþróttafólki sem leggur allt sitt í að standa sig vel og vera flottar fyrirmyndir. Hlökkum til að fylgjast með þeim öllum 2019. Áfram Gerpla!

 

Hér má sjá myndir sem teknar voru á hátíðinni í gær.

You may also like...