fbpx

NM2022: Thelma Norðurlandameistari á slá

Stórglæsilegu Norðurlandamóti í áhaldafimleikum lauk um helgina hér hjá okkur í Gerplu, Versölum. Undirbúningur mótsins hófst árið 2020 en varð að fresta mótinu það ár vegna heimsfaraldurs en loksins gátum við tekið upp þráðinn aftur nú í janúar 2022 til að hefja lokaundirbúning fyrir mótið.

Keppt var í bæði unglinga -og fullorðinsflokki karla og kvenna, liðakeppni, fjölþraut og svo á einstökum áhöldum. Keppendur voru 108 talsins frá sex þjóðum og var um virkilega sterkt mót að ræða. Flestar þjóðir sendu sitt sterkasta lið eða einstaklinga til keppni.

Unglingalandslið kvenna

Gerpla átti átta keppendur og fjóra varamenn í landsliðum Íslands um helgina.

Stúlknalandslið Íslands
Kristjana Ósk Ólafsdóttir – varamaður
Sól Lilja Sigurðardóttir – varamaður

Kvennalandslið Íslands – bronsverðlaun í liðakeppni
Agnes Suto
Dagný Björt Axelsdóttir
Hildur Maja Guðmundsdóttir
Thelma Aðalsteinsdóttir

Karlalandslið Íslands
Atli Snær Valgeirsson
Jónas Ingi Þórisson
Martin Bjarni Guðmundsson
Valgarð Reinhardsson
Arnþór Daði Jónasson – varamaður
Valdimar Matthíasson – varamaður

Frábær árangur okkar keppanda um helgina þar sem ber hæst að nefna er Norðurlandameistaratitill Thelmu Aðalsteinsdóttur á slá, 3. sæti hjá íslenska kvennalandsliðinu í liðakeppni, tvöföld silfurverðlaun Valgarðs Reinhardssonar á gólfi og stökki og silfurverðlaun Hildar Maju Guðmundsdóttur á gólfi. Agnes Suto komst í úrslit á tveimur áhöldum og Martin Bjarni Guðmundsson á einu áhaldi sem er frábær árangur á svona sterku móti. Thelma gerði sér einnig lítið fyrir og hafnaði í 6. sæti í fjölþraut með 48.065 stig sem er hennar hæsta einkunn til þessa og besti árangur íslensku keppendanna í fjölþraut.

Thelma Aðalsteinsdóttir

Við viljum senda sérstakar hamingjuóskir til fimleikafólksins okkar sem og til allra íslensku keppendanna en einnig til þjálfarana sem standa á bakvið þessar frábæru fyrirmyndir.

Starfsfólki Fimleikasambandsins þökkum við fyrir gott samstarf við undirbúning og framkvæmd mótsins sem og Hlín Bjarnadóttur fyrir hennar ómetanlegu vinnu.

Svona stór viðburður er ekki sjálfsprottinn og liggja þarna á bakvið mörg hundruð klukkustundir í vinnu starfsmanna og ekki síst sjálfboðaliða.  Sjálfboðaliðunum okkar verður seint fullþakkað en við viljum þó senda eitt risastór þakklæti út í cosmósið. Við viljum því þakka öllum sjálfboðaliðum sem hjálpuðu okkur við undirbúning og framkvæmd mótsins um helgina, án ykkar hefði þetta mót ekki orðið að veruleika.

Áfram Íslenskir Fimleikar

Takk fyrir okkur!

You may also like...