fbpx

Tvöfaldur Norðurlandameistari

Dagur Kári Ólafsson

Dagur Kári Ólafsson varð tvöfaldur Norðurlandameistari á Norðurlandamóti unglinga sem fram fór á laugardaginn síðasta 30. október. Mótið var frábrugðið hefðbundnum Norðurlandamótum þar sem um netmót var að ræða en keppendur Norðurlandanna tóku þátt hvert í sínu landi og voru dómarar frá hverju landi samankomnir og dæmdu mótið í rauntíma af skjá. Allt í senn var keppt í liðakeppni, fjölþraut og á einstökum áhöldum á sama tíma.

Dagur og Viktor

Dagur Kári gerði sér lítið fyrir og sigraði bogahest og svifrá og varð í þriðja sæti í fjölþraut. Íslenska drengjaliðið varð svo í 2. sæti í liðakeppni. Skemmtilegt frá því að segja en landsliðsþjálfarinn Róbert Kristmannsson var einmitt Norðurlandameistari unglinga á bogahesti árið 2005 og bróðir hans Viktor Kristmannsson og þjálfari Dags Kára varð einnig Norðurlandameistari unglinga á bogahesti árið 2000.

Dagur Kári sem er nýorðinn 18 ára var að keppa á sínu síðasta móti í unglingaflokki og keppir næst á Norður Evrópumóti í Cardiff seinna í mánuðinum en þá í fullorðinsflokki. Við hittum á Dag Kára og spurðum hann út í NM og mótið framundan.

Hvernig gekk á Norðurlandamótinu?
„Það gekk frekar vel hjá mér. Þetta var reyndar allt öðruvísi en hefðbundin mót og óþægilegt að þurfa að bíða lengi á milli áhalda vegna tækniörðugleika. Ég reyndi að láta það ekki trufla mig og það gekk upp hjá mér. Á síðasta áhaldinu var ég aðeins búinn að missa einbeitinguna og klúðraði afstökkinu á tvíslá en annars átti ég gott mót“

Hver eru markmiðin fyrir Norður Evrópumót?
„Markmiðið fyrir NEM er að gera allar seríur hreinar og vonandi komast í úrslit á bogahesti“

Ertu að plana að bæta við erfiðleika á einvherju áhaldi fyrir NEM?
„Það fer eftir því hvernig æfingar ganga fram að mótinu. Ég er að hugsa um að bæta við tvöföldu heljarstökki á gólfi og gera æfinguna „Wu Guonian“ á bogahesti ef ég kemst í úrslit“.

Það verður gaman að fylgjast með Degi Kára á í framtíðinni og óskum við honum innilega til hamingju með frábæran árangur og um leið góðs gengis á mótinu í Wales.

You may also like...