fbpx

Þrír Íslandsmeistaratitlar til Gerplu

Stelpurnar í fyrsta, öðrum og þriðja flokki gerðu sér lítið fyrir og sigruðu sína flokka á nýafstöðnum Íslandsmótum í hópfimleikum. Stelpurnar í 1. og 2. flokki kepptu á Akranesi og sigruðu í jafnri og spennandi keppni. 1.flokkur Gerplu var aðeins 0,075 stigum á undan sterku liði Stjörnunnar úr Garðabæ. Þetta var í fyrsta skipti frá árinu 2012 sem Gerpla hampar þessum titli en lið Stjörnunnar úr Garðabæ hefur sigrað 1.flokkinn undanfarin 5 ár. Sigurinn var því sætari fyrir vikið.
Stelpurnar í 2.flokki unnu Íslandsmeistaratitilinn og Deildarmeistaratitilinn annað árið í röð. Mjög öflugur flokkur á ferðinni sem hefur staðið sig vel í allan vetur. Lið Selfossstúlkna var öflugt og urðu þær í 2.sæti og lið Hattar varð í því þriðja.
Stelpurnar í 3.flokki fóru austur á Egilsstaði og sigruðu A-deildina ásamt því að hampa deildarmeistaratitli fyrir veturinn. Þær eru ósigraðar í vetur en fast á hæla þeirra varð lið Fjölnis og í þriðja sæti urðu stelpurnar úr Aftureldingu.
Framtíðin er greinilega björt í hópfimleikadeildinni í Gerplu og verður gaman að fylgjast með þeim á næstu árum.

You may also like...