fbpx

Glæsilegur árangur hjá okkar fólki á HM

Heimsmeistaramótið í áhaldafimleikum fer fram núna um þessar mundir í Liverpool á Englandi. Gerpla átti fjóra keppendur á mótinu. Þau Hildi Maju, Thelmu, Valgarð og Jónas Inga.

Valgarð, Jónas Ingi, Hildur Maja & Thelma (mynd: fimleikasamband.is)

Hildur Maja Guðmundsdóttir og Thelma Aðalsteinsdóttir kepptu í undankeppninni síðastliðinn laugardagskvöld og kepptu stúlkurnar mjög seint um kvöld, áttu þær virkilega flott mót báðar tvær enda langur og strangur undirbúningur búinn að vera síðustu mánuði. Þær hófu keppni á stökki þar sem þær fengu báðar sína hæstu einkunn. Hildur Maja keppti með nýtt stökk á mótinu og heppnaðist það virkilega vel.  Stúlkurnar fengu mikinn stuðning í stúkunni þar sem fjöslkyldur þeirra og vinir mættu til Liverpool að styðja þær og létu vel í sér heyra. Gaman að segja frá því að vinsælasta podcastið í fimleikaheiminum Gymcastic tóku sérstaklega eftir stúlkunum okkar og hrósuðu þeim fyrir glæsileika, tæknilegar útfærslur og fyrir frábæra tjáningu í gólfæfingunum sínum. Nefndu einnig að þær yrðu frábærar inn í háskólafimleikana í Bandaríkjunum, ekki slæm meðmæli þar!

Valgarð Reinhardsson og Jónas Ingi Þórisson kepptu síðastliðinn mánudag í undankeppni mótsins. Þeirra keppni hófst snemma morguns og byrjuðu þeir keppni á tvíslá. Bestan árangur áttu þeir á stökki báðir tveir og kláruðu svo mótið með glæsibrag og engum föllum. Breytt fyrirkomulag hjá körlunum með tveimur styttri podium æfingum fyrir keppni var öðruvísi en strákarnir eru vanir. Frábær reynsla sem fer beint í reynslubankann fyrir komandi tímabil. Stemningin í stúkunni var hreint mögnuð, stuðningurinn frá stuðningsmönnum íslenska hópsins yfirgnæfði oft höllina og mátti stundum halda að þeir væri á heimavelli.

Drengirnir halda núna áfram keppni og er næsta verkefni þeirra Norður Evrópumót í Finnlandi eftir 3 vikur, en stelpurnar ætla að einbeita sér á næstu mánuðum að æfingum og bæta við sig erfiðleika fyrir komandi keppnistímabil, enda langt og strangt tímabil á enda sem hófst með fyrsta móti í apríl.

Innilegar hamingjuóskir með glæsilegt mót, keppendur og þjálfarar!

You may also like...