fbpx

Frábær árangur Gerpufólks á Íslandsmeistaramótinu í áhaldafimleikum í dag!

Í dag for fram keppni í fjölþraut kvenna og karla á Íslandsmótinu í áhaldafimleikum sem haldið var í Ármannsheimilinu. Virkilega hörð keppni í öllum flokkum sem sýnir hversu mikil breidd er komin í fimleikana á Íslandi.

Í fullorðinsflokki karla var virkilega hörð keppni milli Gerplustrákanna Valgarðs, Martins Bjarna og Eyþórs Arnar. Drengirnir skiptust á að verma toppsætið í gegnum keppnina. Martin kom virkilega á óvart á sínu fyrsta móti í fullorðinsflokki og sýnir hversu efnilegur fimleikamaður hann er og Valgarð þurfti virkilega að hafa fyrir því að verja titilinn í dag. Valgarð innsiglaði sigurinn með glæsilegum æfingum á svifrá og landaði Íslandsmeistaratitlinum þriðja árið í röð.

Í fullorðinsflokki kvenna var vitað fyrirfram að glænýr Íslandsmeistari yrði krýndur í dag, en einnig var vitað að um virkilega spennandi keppni yrði að ræða enda margar mjög glæsilegar stelpur mættar til leiks. Í dag var hörð keppni á milli Gerplustúlknanna Agnesar Suto-Tuuha og Thelmu Aðalsteinsdóttur og munaði einungis 0,1 stigi á milli þeirra fyrir síðasta áhaldið sem voru gólfæfingar. Agnes hóf keppni og átti virkilega góðar æfingar en Thelma var síðust inn á keppnisgólfið vitandi að hún ætti inni einkunn sem gæti skákað Agnesi, en þegar á hólminn var komið þá hafði reynslan örlítið betur og náði Agnes að sigra og vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í fjölþraut eftir langa bið í toppbaráttunni. Gerpla átti 6 stúlkur í topp 10 í kvennakeppninni sem verður að teljast frábær árangur.

Í unglingaflokki karla mætti Gerplupilturinn Ágúst Ingi Daviðsson til leiks og framan af stóð hann í hári Jónasar Inga Þórissonar úr Ármanni, Ágúst Ingi er ungur og efnilegur fimleikamaður sem er á hraðri uppleið hafnaði í öðru sæti ekki langt á eftir Jónasi og verður virkilega gaman að fylgjast með honum í framtíðinni, rétt á eftir Ágústi var Valdimar Matthíasson í þriðja sæti sem átti einnig virkilega gott mót. Dagur Kári Ólafsson kom svo fast á hæla og á mikið inni.

Í unglingaflokki stúlkna var keppnin virkilega spennandi og eftir fyrsta áhald var vitað að keppnin yrði mjög opin og spennandi. Hildur Maja Guðmundsdóttir byrjaði keppnina á gólfi með þvílíkum krafti og var vitað að hún ætti eftir að stimpla sig rækilega inn ásamt vinkonu sinni Heru Lind Gunnarsdóttur. Þær stöllur hafa bætt við sig erfiðleika undanfarið og eru orðnar öruggari í keppni. Eftir smávægileg mistök á tvíslá hjá Hildi var annað sætið hennar en ekki langt á eftir 1.sætinu. Hera Lind var einnig í mikilli keppni um titilinn en eftir erfiða slá varð fjórða sætið hennar. Dagný Björt á yngsta ári í þessum flokki nældi sér í dýrmæta reynslu í dag og keppir í úrslitum á slá á morgun sem er frábær árangur. Þessar ungu og efnilegu stúlkur eiga framtíðina fyrir sér og verður gaman að sjá þær takast á við næstu verkefni sem þær skella sér í.

Við erum virkilega stolt af öllum okkar frábæru iðkendum sem tóku þátt í dag, á morgun er nýr dagur og verður keppt til úrslita á einstökum áhöldum. Einnig verður keppt um Íslandsmeistaratitla í 1. og 2. Þrepi karla og kvenna.

Áfram Gerpla 🏆🥇🥈🥉🏆

Martin Bjarni, Valgarð og Eyþór Örn

Thelma, Agnes Suto og Emilía Björt
Valgarð og Agnes
Hildur Maja, Laufey og Guðrún Edda
Gerplustrákarnir í frjálsum æfingum 2019
Gerplustúlkurnar á Íslandsmóti í frjálsum æfingum 2019
Íslandsmeistarar 2019
Íslandsmeistarar 2019 Valgarð og Agnes
Ágúst Ingi, jónas Ingi og Valdimar

You may also like...