fbpx

Fjórir bikarmeistaratitlar í hús hjá Gerplu um helgina

Fyrsti bikarmeistaratitill Gerplukvenna síðan 2015

Gerplustúlkur náðu að endurheimta bikarinn í Kópavoginn um helgina eftir langa bið. Það var mikil eftirvænting í Digranesi í gær þegar bestu hópfimleikalið landsins mættu til keppni. Fyrirfram var vitað að keppnin yrði jöfn og spennandi á milli kvennaliðs Stjörnunnar og Gerplu. Stjörnustúlkur hafa unnið bikarinn samfleytt síðan árið 2016 en þar á undan höfðu Gerplustúlkur unnið hann 10 sinnum í röð eða frá 2006-2015. Kvennalið Gerplu mætti einbeitt til leiks í gær. Ljóst var eftir fyrsta áhald að Gerplustúlkurnar væru mættar til keppni, þar sem þær negldu dýnuna með glæsibrag og hlutu 17,0 stig fyrir æfingar sínar. Gerplustúlkur eiga mikið inni á trampólíni en sýndu dansinn sinn í gær óaðfinnanlega. Þær sigruðu á öllum áhöldum nokkuð sannfærandi og sigldu bikarmeistaratitlinum nokkuð örugglega heim í Kópavoginn. Mikil endurnýjun hefur átt sér stað undanfarin ár og er uppbygging síðustu ára að skila sér en liðið var skipað ungum liðskonum í bland við eldri og reyndari Gerplustúlkur. Þessi titill er vel verðskulduð uppskera þrotlausrar vinnu iðkenda og þjálfara flokksins sem við erum gríðarlega stolt af. Glæsilegur árangur hjá okkar konum. 

Gerpla sendi ungt og efnilegt lið til keppni í meistaraflokki blandaðra liða. Þau voru eina liðið sem var skráð til leiks og því bikarmeistaratitillinn þeirra. Þau sýndu frábærar æfingar þrátt fyrir að hafa lent í því óhappi að einn liðsmaður þeirra meiddi sig í gólfæfingum og þurfti því að breyta stökkumferðum frá upphaflegu plani. Þau komust mjög vel frá keppninni og er ljóst að þau eiga framtíðina fyrir sér.  

Það er vert að nefna að það er gaman að halda hópfimleikamót í Digranesi og frábært að keppa á loksins á heimavelli í fullorðinsflokki eftir margra ára bið. Stúkan var full af frábærum stuðningsmönnum og skilaði það sér klárlega til liðanna sem nutu sín svo vel á keppnisgólfinu. Við viljum þakka kærlega fyrir þennan frábæra stuðning og stemmningu sem myndaðist í húsinu og öllum sjálfboðaliðum og starfsfólki þökkum við kærlega fyrir frábær störf um helgina. 

Gerpla bikarmeistari í 1. flokki kvenna  

Gerplustúlkur urðu bikarmeistarar stúlkna í 1.flokki með miklum yfirburðum. Í fyrsta flokki eru keppendur 15-17 ára. Þær sigruðu með rúmum sjö stigum á næsta lið og áttu framúrskarandi dag. Þær komu sáu og sigruðu öll áhöldin, sýndu flotta liðsheild og leikgleðin skein af þeim allan daginn. Stelpurnar eru spenntar fyrir Íslandsmótinu sem haldið verður í lok apríl og þær stefna á  bætingar fram að því og ætla sér að verja sjálfan Íslandsmeistaratitilinn. 

2. flokkur kvenna og stökkfimi eldri  

Gerpla tefldi fram einu liði í 2.flokk kvenna og einu liði í stökkfimi eldri. Lið Gerplu í hópfimleikum endaði í 4.sæti í mjög harðri keppni. Þær sýndu frábæran dans og framfarir á stökkáhöldunum. Alls kepptu níu lið í flokknum. Í stökkfiminni endaði lið Gerplu í 5.sæti af níu liðum. Þær sýndu frábærar æfingar á dýnu og trampólíni og gáfu hinum liðunum ekkert eftir þar. Keppnin í stökkfiminni var einnig mjög hörð og spennandi. Ljóst er að stúlkurnar í þessum flokkum eiga framtíðina fyrir sér. Næsta mót hjá þessum liðum er Íslandsmót í lok apríl.  

3. flokkur kvenna  

Gerpla varð bikarmeistari í 3.flokki kvenna og áttu einnig 4.sæti í þeim flokki. Þær voru stigahæstar á gólfi og dýnu og í samanlögðum stigum. Lið Gerplu 2 sem endaði í 4.sæti sýndu einnig frábærar æfingar á öllum áhöldum og voru hársbreidd frá bronsinu. Gerpla átti eitt lið í B-deild í 3.flokki og enduðu þær í 7.sæti. Liðin sýndu bætingar og voru persónulegir sigrar unnir á mörgum vígstöðum. Það er mikil reynsla að keppa í liði og margt sem iðkendur læra í tengslum við það. Það er ánægjulegt að sjá fjöldann og breiddina í þessum flokki hjá Gerplu og er ljóst að framtíðin er björt.  

Við óskum öllum iðkendum og þjálfurum innilega til hamingju með árangurinn! 

You may also like...