fbpx

Ellefu titlar af 12 mögulegum á Íslandsmótinu!

Íslandsmótið í áhaldafimleikum fór fram í Laugabóli um helgina þar sem Gerplufólk kom sá og sigraði og rakaði að sér titlum.
Gerpla vann ellefu Íslandsmeistaratitla af tólf mögulegum í fullorðinsflokki.
Þessi árangur náðist síðast á Íslandsmótinu árið 2012 þegar Róbert Kristmannsson og Thelma Rut Hermannsdóttir voru í framlínu Gerplu.

Um helgina var það Valgarð Reinhardsson sem var sigursælastur en hann sigraði í fjölþraut í karlaflokki og hampaði fjórum titlum af sex á einstökum áhöldum. Valgarð sigraði hringi, stökk, tvíslá og svifrá en þeir Eyþór Örn Baldursson og Arnþór Daði Jónasson fengu einn titil hvor, Eyþór á gólfi og Arnþór Daði á bogahesti. Þessir Íslandsmeistarar eru allir þjálfaðir af Róberti Kristmannssyni.

Í kvennaflokknum var það Agnes Suto Tuuha sem hampaði Íslandsmeistaratitlinum í fjölþraut en hún hefur lengi keppt að því að ná í þennan titil og tókst það um helgina eftir langa bið. Hún varð einnig Íslandsmeistari á tvíslá en Sunna Kristín Ríkharðsdóttir á sínu fyrsta ári í fullorðinsflokki varð Íslandsmeistari á jafnvægisslá og reynsluboltinn Andrea Ingibjörg Orradóttir hampaði titlinum á stökki.

Í unglingaflokki unnust samtals fjórir Íslandsmeistaratitlar en Hildur Maja Guðmundsdóttir sigraði bæði stökk og gólfæfingar en í drengjaflokknum voru það Dagur Kári Ólafsson sem varð Íslandsmeistari á bogahesti og Ágúst Ingi Davíðsson sem sigraði æfingar á hringjum.

Keppendur Gerplu voru duglegir að raða sér í efstu sætin en í karlaflokknum voru það ásamt þeim sem unnu titla Martin Bjarni Guðmundsson með samtals 6 verðlaun, Arnór Már Másson með tvenn verðlaun og Guðjón Bjarki Hildarson með ein verðlaun. Í unglingaflokki karla var ásamt þeim Degi Kára og Ágústi Inga hann Valdimar Matthíasson sem nældi sér í samtals þrenn verðlaun.

Í kvennaflokknum voru það ásamt Íslandsmeisturunum þær Thelma Aðalsteinsdóttir, Birta Björg Alexandersdóttir og Tinna Sif Teitsdóttir sem nældu sér í ein verðlaun hver. Í unglingaflokki kvenna voru það ásamt Hildi Maju þær Hera Lind Gunnarsdóttir og Dagný Björt Axelsdóttir sem unnu til silfurverðlauna hvor á sínu áhaldinu.

Til fjölda verðlauna vannst í öllum flokkum en í heildina vann Gerpla 60% af þeim verðlaunum sem í boði voru. Það er frábært að stimpla sig jafn rækilega inn og raun bar vitni um helgina en keppendur og þjálfarar hafa undirbúið sig stíft síðustu mánuði og sýndu um helgina að þau eru tilbúin í erlendu verkefnin sem raðast inn á vormánuðum. Evrópumótið í fullorðinsflokki er rétt handan við hornið og munu Valgarð, Agnes, Eyþór Örn og Thelma Aðalsteinsdóttir verða þar á meðal keppenda en þegar þetta er skrifað er ekki búið að velja lokalandslið fyrir EM. Hjá unglingunum er Berlin Cup framundan hjá strákunum í apríl og Norðurlandamót unglinga í maí bæði hjá strákum og stelpum. Það verður gaman að fylgjast með þessu kröftuga íþróttafólki sem mun án efa gera sitt allra besta og vera landi og þjóð til sóma.

Við erum afar stolt af öllum okkar keppendum og þjálfurum og óskum þeim innilega til hamingju með þennan frábæra árangur!

You may also like...