fbpx

Evrópumót í áhaldafimleikum

Evrópumótið í áhaldafimleikum er haldið í Antalya Tyrklandi dagana 11.-16. apríl. Mótið er liðakeppni, fjölþrautarkeppni og einnig er keppt til úrslita á einstökum áhöldum.

Ísland sendi fullskipað lið hjá körlunum þar sem fimm keppendur eru í liði en eingöngu fjórir keppendur mega keppa á hverju áhaldi og þurfa því tveir keppendur að skipta með sér áhöldum sex. Í kvennaliðinu voru fjórir keppendur og kepptu því allar stúlkurnar í fjölþraut.

Karlaliðið skipaði:
Ágúst Ingi Davíðsson – Gerpla
Dagur Kári Ólafsson – Gerpla
Jónas Ingi Þórisson – Gerpla
Martin Bjarni Guðmundsson – Gerpla
Valgarð Reinhardsson – Gerpla
Jón Sigurður Gunnarsson – Ármanni keppti einnig á sínu besta áhaldi hringjum.

Valgarð

Strákarnir okkar hófu keppni á þriðjudaginn og kepptu Dagur, Martin og Valgarð í fjölþraut, Jónas og Ágúst skiptu síðan á milli sín þrem áhöldum hvor. Jónas keppti á gólfi, bogahesti og stökki og Ágúst Ingi keppti á hringjum, tvíslá og svifrá. Strákarnir áttu frábært mót sem lið og enduðu í 20. sæti af 27 liðum. Sem er þeirra besti árangur í liðakeppni til þessa.

Besta árangur strákanna á Íslandsmeistarinn okkar Valgarð Reinhardsson. Valgarð fékk 75,698 stig og fast á hæla hans varð Dagur Kári með 75.565 stig og lentu þeir í 52 og 53 sæti af 77 keppendum sem luku fjölþrautarkeppni. Þeir eru varamenn 1 og 2 inn á Heimsmeistaramótið í áhaldafimleikum sem fer fram í Antwerpen, Belgíu í lok September. Við bíðum spennt eftir því hvort að einhverjir sem á undan þeim eru detti út svo við eigum fulltrúa í karlakeppninni á síðasta HM sem gefur inn sæti á Ólympíuleikana í París 2024.

Martin Bjarni átti einnig frábært mót í fjölþraut, hann fékk 74.432 stig sem skilaði honum 64. Sæti. Jónas Ingi og Ágúst Ingi kepptu á þrem áhöldum hvor og átti Jónas besta árangur strákanna á gólfi þar sem hann var í 34. Sæti af 124 keppendum með einkunnina 13.466.

Frábært mót hjá strákunum öllum.

Kvennaliðið skipaði:
Agnes Suto – Gerpla
Hildur Maja Guðmundsdóttir – Gerpla
Margrét Lea Kristinsdóttir – Björk
Thelma Aðalsteinsdóttir – Gerpla

Stelpurnar okkar hófu keppni á miðvikidaginn og kepptu þær allar í fjölþraut. Kvennaliðið okkar náðu þeim frábæra árangri að verða í 20. sæti í liðakeppninni af 27 liðum. Virkilega vel gert hjá þeim.

Thelma

Besta árangur Íslensku keppendanna á hún Thelma Aðalsteinsdóttir, hún lenti í 48. sæti í fjölþraut af 95 keppendum með 47.265 stig sem tryggði henni sæti inn á HM. Thelma varð 14. einstakingurinn inn á Heimsmeistaramótið sem haldið verður í Antwerpen, Belgíu næsta haust.

Hildur Maja átti ekki sitt besta mót í þetta sinn, en eftir erfiða byrjun á fyrsta áhaldi, sýndi hún og sannaði hversu frábær íþróttakona hún er og rúllaði hún upp áhöldunum sem komu á eftir. Hún sýndi frábærar gólfæfingar og varð hæst af íslensku stelpunum á gólfi með einkunnina 12.200 stig sem er 37. sæti af 119 keppendum.

Reynsluboltinn okkar hún Agnes Suto átti einnig mjög góð þrjú áhöld af fjórum. Hún sýndi frábærar æfingar á stökki og varð hæst af íslensku stelpunum þar sem hún fékk 13.033 stig.

Frábært mót hjá stelpunum öllum.

Við erum einnig virkilega stolt af þjálfurunum okkar sem fóru með keppendunum á mótið í ár og studdu þau í gegnum allt ferlið. Róbert Kristmannsson, Ólafur Garðar Gunnarsson, Ferenc Kováts og Andrea Kováts-Fellner, einnig þeim sem koma að þeirra þjálfun sem voru ekki með á EM í ár, Viktor Kristmannsson, Þorgeir Ívarsson og Lajos Kiss.

Einnig eigum við tvo dómara sem standa ennþá vaktina úti þar til móti lýkur, frændsystkinin Hlín Bjarnadóttir og Sigurður Hrafn Pétursson en ásamt þeim eru einnig Hróbjartur Pálmar Hilmarsson og Sæunn Svanhvít Viggósdóttir fulltrúar Íslands í dómarasæti.

Gerpla óskar öllum innilega til hamingju með glæsilegt Evrópumót og við erum spennt fyrir framhaldinu!

Myndir: Fimleikasamband Íslands

You may also like...