fbpx

Vel heppnuð afmælishátíð Gerplu

Gerpla fagnaði 50 ára afmæli þann 25.apríl árið 2021 og var ekki hægt að halda uppá áfangann fyrr en nú þegar slegið var upp í móttöku þar sem margir af stofnendum Gerplu, fyrrverandi formönnum og öðru góðu Gerplufólki og velunnurum voru saman komnir.

Saga Íþróttafélagsins Gerplu, stofnun og vöxtur er mjög merkileg saga sem allir hrífast af. Stofnendur Gerplu stóðu í ströngu á sínum tíma við að búa félaginu almennilega æfingaumgjörð. Keypt var fasteign að Skemmuvegi í Kópavogi en fjármögnun þessa var ekki átakalaus, og fór svo að nokkrir einstaklinganna gengu svo langt að veðsetja sínar eigin fasteignir til tryggingar fjármögnuninni! Svo var unnið hörðum höndum alla daga að því að koma félaginu fyrir í hinu nýja húsnæði. Þvílíkur áhugi, hugrekki og fórnfýsi hjá þeim sem að þessu komu og erum við þeim ævinlega þakklát. Í tilefni þessa stórafmælis Gerplu var ráðist í gerð heimildarmyndar þar sem stofnun félagsins og saga þess er rakin. Heimildirnar sem söfnuðust við gerð þessarar myndar eru mjög dýrmætar. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þessar öflugu konur réðust í að stofna nýtt íþróttafélag í Kópavogi en þetta er samantekt sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Myndin verður aðgengileg á netinu innan skamms.

Á þessum tímamótum var við hæfi að heiðra Gerplufólk sem staðið hefur í eldlínunni á síðustu árum og áratugum. Við erum þeim þakklát fyrir þeirra framlag.  Þeir sem voru heiðraðir á hátíðinni voru Ása Inga Þorsteinsdóttir, Berglind Pétursdóttir, Björn Björnsson, Guðmundur Þór Brynjólfsson, Harpa Þorláksdóttir og Hlín Bjarnadóttir.

Félagið er afar þakklátt þeim sem gáfu sér tíma til að fagna með okkur á hátíðinni en félagið fékk margar heillaóskir í tilefni tímamótanna og erum við einnig þakklát fyrir það. Það má með sanni segja að dagurinn hafi verið hátíðlegur og að vel hafi til tekist.

Við hlökkum til næstu 50 ára í Gerplu!

You may also like...