fbpx

Uppskeruhátíð Gerplu

Uppskeruhátíð Gerplu var haldin hátíðleg í veislusal Gerplu sunnudaginn 20. febrúar.
Hefð hefur verið fyrir því að halda uppskeruhátíðina á vorsýningu félagsins en þar sem henni hefur verið aflýst tvívegis var kominn tími á að finna aðra leið. Hátíðin var minni í sniðum en upphaflega var áætlað en var samt vel sótt af verðlaunahöfum, fjölskyldu og liðsfélögum.
Á hátíðinni eru bæði þjálfarar og iðkendur heiðraðir sem og sjálfboðaliðar.

Í áhaldadeild karla fengu þeir Ágúst Ingi Davíðsson hvatningabikar og Dagur Kári Ólafsson afreksbikar. Ágúst hefur verið að glíma við þrálát bakmeiðsli en hefur sýnt mikla þrautsegju og er að koma hægt og rólega til baka. Dagur Kári átti frábært ár í unglingaflokki, landaði norðurlandameistaratitli og vann til verðlauna á Berlin Cup.

Í áhaldadeild kvenna fengu þær Thelma Aðalsteinsdóttir hvatningabikar og Hildur Maja Guðmundsdóttir afreksbikar. Thelma hefur eins og Ágúst Ingi verið að vinna sig upp úr meiðslum og hefur þurft að aðlaga æfingar sínar að meiðslunum en stefnir nú ótrauð á mótatímabilið í sumar. Hildur Maja átti gott ár og var valin í öll landsliðsverkefni sem í boði voru á árinu í fullorðinsflokki og var hársbreidd frá úrslitum á slá á Norður Evrópumóti.

Í hópfimleikadeildinni voru það vinkonurnar Andrea Hansen og Kolbrún Júlía sem fengu afreksbikarinn en þær urðu Evrópumeistarar með kvennaliðinu í Portúgal í desember og eru lykilkonur í meistaraflokksliði Gerplu. Hvatnngabikar í hópfimleikum fengu stelpurnar í meistaraflokki kvenna en flokkurinn er að ganga í gegnum kynslóðaskipti og hafa þær sýnt elju og þrautsegju og eru á góðri siglingu. Margar þeirra spiluðu stórt hlutverk með unglingaliði kvenna á Evrópumótinu í Portúgal og uppskáru silfur.

Garpur Gerplu var að þessu sinni Valgerður Sigfinnsdóttir. Hún afrekaði það að keppa fyrst íslenskra kvenna með þrefalt heljarstökk með hálfri skrúfu í keppnislendingu á móti. Hún er jafnframt sönn íþróttakona og mikil fyrirmynd annarra iðkenda og okkar allra.

Þjálfari ársins í áhaldadeild er Alek Ramezanpour. Alek er duglegur og útsjónarsamur þjálfari með mikinn metnað fyrir iðkendur Gerplu. Hann er mjög vel liðinn og Gerpla heppin að hafa hann innan sinna raða.

Þjálfari ársins í grunn- og framhaldsdeild er Ingibjörg Þóra Þórarinsdóttir. Ingibjörg Þóra hefur þjálfað stúlkur í grunn- og framhaldsdeild félagsins. Hún er metnaðarfullur þjálfari sem heldur góðum aga og er iðkendum sínum góð fyrirmynd.

Þjálfari ársins í almennri deild er Birgir Valur Birgisson en hann hefur sinnt æfingum í GGG undanfarin ár sem og sumarnámskeiðum félagsins við mjög góðan orðstýr. Góð stemmning hefur myndast innan hópsins og hefur Birgir lagt sitt á vogarskálarnar.

Í hópfimleikadeild var valið þjálfarateymi annars flokks. Teymið skipaði þau Adam Bæhrenz Björgvinsson, Eyrún Inga Sigurðardóttir, Eysteinn Máni Oddsson og Rebekka Rut Stefánsdóttir. Þau voru mjög öflug í að halda utan um hópinn og einkenndist hópurinn af mikill samkennd, gleði og brottfallið var lítið. Árangurinn á keppnisgólfinu fylgdi svo í kjölfarið.

Félagsmálabikarinn hlaut Fjóla Valdís Árnadóttir en Fjóla Valdís hefur verið ein af þeim sem hafa haldið starfinu uppi í kringum meistaraflokka félagsins í mörg ár. Þar á undan skilaði hún einnig mikilli og góðri vinnu fyrir félagið á ýmsum vígstöðvum. Hún er kraftmikil og á auðvelt með að fá fólk til að hrífast með sér og við þakklát fyrir að hafa hana innan okkar raða. 

You may also like...