Ragnheiður lætur af formennsku og Marta Kristín nýr formaður Gerplu

Aðalfundur íþróttafélagsins Gerplu fór fram í veislusal félagsins þann 29.september síðastliðinn. Fundurinn markar upphaf á nýju starfsári og tilefni til að líta yfir farinn veg. Það voru tímamót á fundinum þar sem urðu formannsskipti og nýr liðsmaður kom inn í stjórn.

Helstu tíðindi fundarins voru þau að Ragnheiður M. Ólafsdóttir lét af störfum eftir 17 ára samfellda setu í stjórn Gerplu, þar af sem formaður félagsins frá árinu 2018. Hennar stjórnartíð einkennist af vexti, þróun og vandaðri umgjörð utan um félagsstarfið. Ragnheiður hóf fyrst iðkun hjá Gerplu árið 1981 og hefur alla tíð verið virkur þátttakandi í starfi félagsins með stuttu hléi. Með ómetanlegu framlagi sínu hefur hún lagt grunn að traustu félagi og skapað aðstæður þar sem ný kynslóð félagsmanna getur blómstrað. Stjórn og félagar þakka Ragnheiði innilega fyrir ómetanlegt starf og óeigingjarna þátttöku í þágu félagsins.

Á fundinum tók Marta Kristín Sigurjónsdóttir við formennsku í Gerplu. Marta Kristín hefur gegnt stöðu varaformanns undanfarin ár og er vel kunnug öllum krókum og kimum í Gerplu og hefur verið mjög virk í sínum störfum fyrir félagið. Hún býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu á starfinu og hefur mikinn áhuga á að efla félagið áfram. Félagið fagnar því að Marta Kristín taki nú við keflinu og bindur vonir við að undir hennar stjórn haldi Gerpla áfram að vaxa og dafna.

Víkar Máni Þórsson var kosinn nýr stjórnarmaður á aðalfundinum. Hann hefur undanfarin ár starfað með félaginu, sérstaklega í tengslum við vorsýningar þar sem hann hefur séð um ljós og hljóð. Með reynslu sinni og áhuga á félagsstarfi bætist hann nú við öfluga stjórn Gerplu og mun án efa leggja sitt af mörkum til enn frekari framfara.

Aðalfundur Gerplu markar nýtt upphaf fyrir félagið. Með nýjum formanni og öflugri stjórn er horft björtum augum til framtíðar, þar sem gildi félagsstarfsins liggur í gleði, metnaði og fagmennsku. Félagið sendir öllum félagsmönnum og stuðningsfólki hlýjar kveðjur, þakkar gott samstarf og hvetur til áframhaldandi þátttöku í leik og starfi.

Hér má sjá stjórn Gerplu tímabilið 2024-2025
Stefán Guðni, Jóna Björg, Marta Kristín, Ragnheiður, Sif, Davíð og Hreggviður.

You may also like...