fbpx

Ótrúlegir yfirburðir Íþróttafélagsins Gerplu á Íslandsmótinu

Gerplufólk rakaði til sín verðlaunum á Íslandsmótinu í áhaldafimleikum sem haldið var í íþróttamiðstöðinni Versölum um liðna helgi 11. og 12. júní. 

Í fullorðinsflokki voru tólf Íslandsmeistaratitlar í boði en Gerpla vann samtals 11 titla í karla- og kvennaflokki. Þau Thelma Aðalsteinsdóttir og Valgarð Reinhardsson hömpuðu Íslandsmeistaratitlunum í fjölþraut á laugardeginum með nokkrum yfirburðum og áttu frábæran dag bæði tvö. 

Í kvennaflokki var það svo Hildur Maja Guðmundsdóttir sem varð í 2. sæti og Agnes Suto í 3. sæti. Í karlaflokki voru það Jónas Ingi Þórisson sem varð annar og Martin Bjarni Guðmundsson í því þriðja. Það var því verðlaunapallur eingöngu skipaður Gerplufólki bæði í karla- og kvennaflokki.  

Hildur

Í úrslitum á einstökum áhöldum varð lítil breyting á sigurgöngu Gerplufólks sem mætti greinlega vel undirbúið til leiks en af þrjátíu mögulegum verðlaunasætum vann Gerpla 27 verðlaun og níu Íslandsmeistaratitla af tíu mögulegum. Alla titlana fjóra sem í boði voru í kvennaflokki og fimm titla af sex í karlaflokki. Í kvennaflokknum voru það þær Agnes Suto og Hildur Maja sem skiptu með sér áhöldunum. Agnes hampaði titlinum á stökki og tvíslá á meðan að Hildur Maja vann tvo Íslandsmeistaratitla og sigraði slá og gólf en hún varð jafnframt önnur á stökki og þriðja á tvíslá.  

Keppendur Gerplu röðuðu sér svo í sætin í kring en Thelma Aðalsteinsdóttir bætti við þremur silfurmedalíum en hún var í úrslitum á öllum áhöldum nema stökki þar sem hún framkvæmdi aðeins eitt stökk í fjölþrautarkeppninni. Dagný Björt Axelsdóttir nældi sér svo í silfur á jafnvægisslá sem er glæsilegur árangur þar sem hún var að keppa í fyrsta skipti í fullorðinsflokki.  

Dagur Kári

Í karlaflokkinum var Valgarð einnig hlutskarpastur á einstökum áhöldum þar sem hann hampaði Íslandsmeistaratitli á gólfi, stökki og svifrá og varð jafnframt annar á hringjum og tvíslá og þriðji á bogahesti. Gerpludrengir röðuðu sér svo í hin sætin en Dagur Kári Ólafsson varð Íslandsmeistari á bogahesti og tvíslá og varð annar á svifrá og þriðji á gólfi. Arnþór Daði Jónasson varð annar á bogahesti, Jónas Ingi Þórisson varð þriðji á hringjum og tvíslá, Martin Bjarni varð annar á gólfi og þriðji á svifrá og Valdimar Matthíasson varð þriðji á stökki.  

Rakel Sara Pétursdóttir Íslandsmeistari unglinga 

Í unglingaflokki var það hin unga og efnilega Rakel Sara Pétursdóttir sem kom sá og sigraði. Hún keyrði sínar æfingar af miklu öryggi og stóð óvænt efst í fjölþrautinni og hampaði þar með sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli unglinga.

Rakel Sara

Rakel Sara er fædd árið 2010 og á því þrjú ár eftir í unglingaflokknum. Á einstökum áhöldum varð Rakel Sara Íslandsmeistari á tvíslá og liðsfélagi hennar Kristjana Ólafsdóttir varð í þriðja sæti og Sól Lilja Sigurðardóttir í því fjórða. Þær síðarnefndu fæddar árið 2009. Ánægjulegt að eiga margar efnilegar á tvíslánni. Á jafnvægisslánni var það svo hin efnilega Ísabella Róbertsdóttir sem sigraði óvænt og hampaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli en jafnaldra hennar Rakel Sara varð önnur á slánni. Í unglingaflokki karla áttum við aðeins einn keppanda að þessu sinni en það var hinn ungi og efnilegi Kári Pálmason. Hann stóð sig heldur betur vel og nældi sér í tvenn bronsverðlaun á hringjum og gólfi en hann varð í fjórða sæti á tvíslá og svifrá og í fimmta sæti á stökki. Hann endaði í sjötta sæti í fjölþrautinni. Kári er fæddur árið 2009 og á því fimm ár eftir í unglingaflokknum sem þýðir að hann er rétt að byrja.  

Gerpla var með unga keppendur bæði í unglingaflokki karla og kvenna og verður því árangur helgarinnar að teljast mjög góður og framtíðin björt hjá félaginu. 

Það er gaman frá því að segja að árangurinn um helgina fer í sögubækurnar en það eru akkurat tíu ár síðan að Gerpla hampaði ellefu Íslandsmeistaratitlum af tólf mögulegum í áhaldafimleikum í fullorðinsflokki. Það var síðast árið 2012 sem þetta gerðist en þá voru það Róbert Kristmannsson sem vann 7 titla og Thelma Rut Hermannsdóttir sem hampaði fjölþrautartitli og varð einnig Íslandsmeistari á gólfi. Norma Dögg Róbertsdóttir varð það ár Íslandsmeistari á stökki og Tinna Óðinsdóttir á tvíslá.  

Við erum afar stolt af keppendum okkar um helgina sem og þjálfarateymunum sem lagt hafa mikla vinnu í undirbúning og uppskera ríkulega. Innilegar hamingjuóskir til iðkenda, þjálfara og aðstandenda. Áfram Gerpla! 

Norðurlandamót í áhaldafimleikum 2.-3. júlí 2022 

Framundan er Norðurlandamót í áhaldafimleikum sem haldið verður í Íþróttamiðstöðinni Versölum og má búast við að það verði margir iðkendur úr Gerplu í landsliði Íslands á því móti. Við hvetjum jafnframt alla til að gera sér ferð í Versali 2.júlí og sjá fremsta fimleikafólk Norðurlandanna etja kappi. Áfram Ísland!  

You may also like...