Heimsmeistaramótið í áhaldafimleikum: Dagur Kári í úrslitum í fjölþraut – sögulegur árangur!

Heimsmeistaramótið í áhaldafimleikum var haldið í Jakarta í Indónesíu í október. Landslið Íslands var eingöngu skipað keppendum úr Gerplu.

Karlalandslið Íslands
Ágúst Ingi Davíðsson
Dagur Kári Ólafsson
Valgarð Reinhardsson

Kvennalandslið Íslands
Hildur Maja Guðmundsdóttir
Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Thelma Aðalsteinsdóttir

Þjálfarar: Róbert Kristmannsson og Þorgeir Ívarsson

Langt og strangt ferðalag var framundan hjá hópnum og til að aðlagast tímamismun og hita fór hópurinn út viku fyrir keppni með millilendingu í Kuala Lumpur í Malasíu.

Keppendur æfðu þar í fjóra daga og voru virkilega ánægð með veruna þar. Það var mikill raki og hiti í Malasíu og fyrir íslendinga þá var gott að fá smá tíma til að aðlagast á góðum tíma fyrir mót. Lagt var svo af stað til Jakarta þar sem Heimsmeistaramótið beið hópsins.

Vel var hugsað um hópinn í Jakarta og allir mjög vinalegir. Strangar æfingar tóku við í lokaundirbúningnum. Hópurinn þurfti góðan tíma að venjast glænýjum áhöldum sem eru frá öðru merki en okkar fólk er vant en áhöldin voru glerhörð og ekki í líkindum við þau áhöld sem eru hér á Íslandi. Þess vegna var mjög mikilvægt að fá þennan góða undirbúning sem þau fengu til að venjast áhöldunum og aðlagast aðstæðum þar sem áhöldin voru ekki eins í keppnissalnum og æfingasölunum.

Strákarnir hófu svo keppni á fyrsta degi undanúrslita þeir Ágúst, Dagur og Valli. Dagur Kári átti hreint frábært mót sem skilaði honum 75.365 stig og eftir hans keppnisholl þá sat hann í 17. sætinu í fjölþraut. 24 keppendur komast í fjölþrautarúrslit og tók við bið eftir að síðustu holl keppninnar færu fram daginn eftir. Þegar öllu var lokið var Dagur í 24. sætinu og því kominn í úrslit á heimsmeistaramóti í fjölþraut fyrstur íslendinga. Þetta er stórkostlegur árangur hjá Degi Kára og hans þjálfarateymi og fyrir íslenska fimleika. Við erum að springa úr stolti. Ágúst Ingi var að keppa á sínu fyrsta heimsmeistaramóti og náði sér ekki alveg á strik og Valgarð sem hefur verið að glíma við erfið meiðsli á árinu átti ekki sitt besta mót, þeir félagar urðu í 42. Sæti og 49. Sæti í fjölþrautarkeppninni.

Stúlkurnar kepptu á síðasta degi undanúrslitanna þær Hildur, Lilja og Thelma. Lilja var að keppa á sínu fyrsta heimsmeistaramóti og átti flottan dag, frábær reynsla fyrir unga og efnilega fimleikakonu. Thelma átti því miður ekki sinn besta dag, fall á tvíslánni og slánni var kostnaðarsamt en Thelma reynsluboltinn sem hún er kláraði mótið með stæl. Hildir Maja mætti einbeitt til leiks og átti frábært mót, framkvæmdi æfingar sínar af öryggi sem skiluðu henni hæstu fjölþrautarskori íslensku stúlknanna.

22. október rann upp úrslitardagurinn í fjölþraut, fyrsti íslendingurinn á leiðinni í úrslitin. Spennan var rafmögnuð hér á Íslandi. Við í Gerplu settum upp skjávarpann, náðum í stólana og flögguðum fyrir okkar manni Degi Kára, sem var að fara að stíga á eitt stærsta svið fimleikanna. Dagur Kári fór upp á fyrsta áhaldið sem var svifrá, örlítið stressaður sem er ekkert skrítið enda að keppa á meðal 24. bestu fjölþrautamanna í heiminum í dag. Dagur Kári skilaði frábæru dagsverki, stressið rjátlaði af okkar manni með hverju áhaldinu og endaði hann mótið með stórkostlegri seríu á tvíslánni. Dagur Kári endaði í 24. sæti sama sæti og hann kom inn í úrslitin með. Þetta er bara byrjunin hjá okkar manni.

Við erum svo ótrúlega stolt af honum og öllu okkar fimleikafólki. Núna er standardinn settur, íslenskt fimleikafólk í úrslit á stórmótum hér eftir. Áfram íslenskir fimleikar!

Myndir: Emily Chan, FSÍ

You may also like...