fbpx

Þrír Bikarmeistaratitlar til Gerplu um helgina

Bikarmótið í hópfimleikum og stökkfimi yngri flokka fór fram um liðna helgi í umsjón okkar í Íþróttafélaginu Gerplu.  Alls mættu 95 lið til leiks frá 16 félögum víðs vegar af landinu. Mótið fór vel fram í alla staði. Tímasetningar stóðust og mikið fjölmenni var í húsinu sem var virkilega ánægjulegt en það myndaði góða stemmningu á pöllunum.

Árangur okkar liða var eftirtektarverður á margan hátt. Ekki bara varð Gerpla bikarmeistari í 3. flokki, 4. flokki og 5. flokki kvenna heldur voru liðin öll að sýna fallaega fimleika og mikil gleði var hjá iðkendum okkar sem reyndu sitt allra besta og öðluðust dýrmæta reynslu og vonandi góða upplifun. Vert er að nefna að 3. flokkur, 4. flokkur og kky fór sérstaklega illa út úr Covid árunum og misstu úr margar keppnir. Fyrir vikið er árangur þeirra um helgina enn flottari og við erum ákaflega stolt af okkar keppendum og þjálfurum þeirra sem hafa haldið vel utan um liðin.

Í hópfimleikum urðu helstu úrslit að í flokki drengja KKY endaði lið Gerplu 1 í 2. sæti og lið Gerplu 2 í 6. sæti. Strákarnir voru mjög flottir og höfðu gaman af. Í 5. flokki stúlkna varð lið Gerplu 1 bikarmeistari og lið Gerplu 2 í 7. sæti af sextán liðum sem verður að teljast frábær árangur. Í 4. flokki varð lið Gerplu 1 bikarmeistari og lið Gerplu 2 varð í 5. sæti, Gerpla 3 í 11. sæti og Gerpla 4 í 20. sæti af 24 liðum. Öll liðin voru alveg hreint frábær og gaman að fylgjast með þeim jafnt inni á keppnisgólfinu sem og á bakvið tjöldin á milli áhalda. Í 3. flokki varð lið Gerplu 1 bikarmeistari og lið Gerplu 2 varð í 6. sæti af sautján liðum. Alveg hreint stórkostlegur árangur hjá öllum okkar liðum og þjálfarateymum.

Á bikarmótinu í stökkfimi áttum við einungis stúlknalið. Eitt lið í 3. flokki sem varð í 3. sæti á gólfi og 4. sæti samanlagt. Tvö lið í 4. flokki þar sem lið Gerplu rauður kepptu í A-deild og urðu í 2. sæti á gólfi og þriðja sæti á dýnu og trampólíni og öðru sæti samanlagt. Lið Gerplu gulur kepptu í B-deild og fengu brons fyrir flottar æfingar á gólfi og 6. sætið samanlagt. Í 5. flokki tefldi Gerpla einnig fram tveimur liðum þar sem Gerpla gulur varð í 2. sæti og Gerpla rauður í 5. sæti en í þessum flokki fengu allir keppendur viðurkenningu fyrir þátttökuna.

Virkilega flottur árangur hjá okkar fólki og þakklæti efst í huga til allra þeirra sem lögðu hönd á plóg. En án þjálfara, sjálboðaliða, iðkenda í eldri flokkum og annarra velunnara er þetta óframkvæmanlegt. Það er ekki létt verk að halda mót í öðru húsi þar sem flytja þarf mikið af áhöldum í nokkrum flutningabílum en sem betur fer voru veðurguðirnir hliðhollir okkur í flutningum. Næst á döfinni er bikarmót í áhaldafimleikum 1.-3. þrep um næstu helgi og svo mótaröðin í hópfimleikum á Akureyri 26. mars þar sem meistaraflokkur mun spreyta sig.  

Til hamingju með árangurinn kæru keppendur og þjálfarar!

You may also like...