Sögulegur árangur á HM í fimleikum – Dagur Kári fyrstur Íslendinga í fjölþrautarúrslit

Fimleikasaga Íslands var skrifuð á ný í morgun þegar Dagur Kári Ólafsson tryggði sér sæti í fjölþrautarúrslitum á heimsmeistaramótinu í áhaldafimleikum í Jakarta, Indónesíu. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur keppandi nær þessum áfanga á heimsmeistaramóti í greininni og markar þetta tímamót fyrir íslenska fimleika.
Dagur Kári, sem æfir með Íþróttafélaginu Gerplu, sýndi frábærar æfingar í undankeppninni og hlaut samtals 75,365 stig. Hann hafnaði í 24. sæti og tryggði sér þar með sæti í úrslitum sem fara fram miðvikudaginn 22. október. Alls komast 24 í úrslit og nældi hann því í síðasta úrslitasætið eftir mjög harða og spennandi keppni. Það verður spennandi en fyrst og fremst ánægjulegt að sjá Dag Kára keppa með þeim allra bestu á miðvikudaginn en þrátt fyrir frábæra frammistöðu í gær á hann inni stig bæði á tvíslá og svifrá. Úrslitin eru sýnd í beinni útsendingu á RÚV.
Stigafjöldi hans í einstökum áhöldum var eftirfarandi:
- Gólfæfingar: 12,733
- Bogahestur: 13,466
- Hringir: 11,433
- Stökk: 13,400
- Tvíslá: 12,433
- Svifrá: 11,900
Róbert Kristmannsson þjálfari er í skýjunum og sagði í viðtali:
„Erum að átta okkur á þessum niðurstöðum en erum staðráðnir í að nýta þetta tækifæri til fulls og skilja allt eftir í keppnissalnum.“
Íþróttafélagið Gerpla fagnar árangrinum og lýsir mikilli ánægju með afrek Dags.
„Við í Gerplu erum að springa úr stolti. Dagur Kári er búinn að sýna og sanna að það er allt hægt með þrautsegju og dugnaði. Það liggur mikil vinna hjá íþróttamanni og þjálfara áður en svona árangur næst.“ Þjálfarar Dags, bræðurnir Róbert og Viktor Kristmannssynir, fá einnig mikið hrós fyrir sitt framlag.
Framkvæmdastjóri Fimleikasambands Íslands, Sólveig Jónsdóttir, lýsir miklu stolti yfir árangrinum og segir:
„Það eru fá orð sem fá lýst hversu stolt ég er af fólkinu okkar öllu. Teymið á bak við þennan árangur og vinnan sem þau hafa lagt í verkefnið er ómæld og unnin af sannri ástríðu. Þessi árangur er ekki aðeins vitnisburður um fagleg vinnubrögð og elju, heldur líka um samstöðu og ástríðu sem einkennir fólkið okkar.“
Íþróttafélagið Gerpla óskar Degi Kára og fjölskyldu hans innilega til hamingju með þennan einstaka árangur og hvetur allt fimleikaáhugafólk til að fylgjast með úrslitakeppninni á miðvikudag. Þeir Valgarð Reinhardsson og Ágúst Ingi Davíðsson náðu ekki að sýna sitt besta í undanúrslitum og enduðu í 42. sæti og 49. sæti í fjölþrautarkeppninni.
Þá stígur íslenska kvennalandsliðið á stóra sviðið á morgun, 21. október, og verður spennandi að fylgjast með þeirra frammistöðu í undanúrslitum. Við óskum þeim Thelmu, Hildi Maju og Lilju Katrínu góðs gengis á morgun.
Áfram íslenskir fimleikar! Áfram Gerpla