fbpx

Norma Dögg Róbertsdóttir hlaut afreksstyrk Landsbankans

Fréttatilkynning frá Landsbankanum
30. apríl 2014

 

Ellefu framúrskarandi íþróttamenn fá afreksstyrk

 

Ellefu framúrskarandi íþróttamenn fengu í dag úthlutað þremur milljónum króna  í afreksstyrki  úr Samfélagssjóði Landsbankans. Fjórir fengu 400.000 króna styrk, en þeir eru allir í fremstu röð íslenskra íþróttamanna og sjö afreksmenn framtíðarinnar fengu 200.000 króna styrk hver. Þetta er í annað sinn sem Landsbankinn veitir afreksstyrki undir þessum formerkjum og bárust nú 177 umsóknir um þá.

 

Markmið styrkjanna er að styðja við bakið á afreksfólki sem iðkar einstaklings- eða paraíþróttir. Styrkirnar dreifast mjög vel milli íþróttagreina og félaga. Allir styrkþegar hafa náð langt og geta státað af framúrskarandi árangri bæði innanlands og á erlendum vettvangi. Tveir skíðamenn hljóta styrki að þessu sinni, á ári vetrarólympíuleika, en annar þeirra er fulltrúi alpagreina en hinn norræna skíðagreina.

 

 Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans segir: Landsbankinn hefur um árabil stutt dyggilega við íslenskt íþrótta- og æskulýðsstarf og afreksstyrkirnir eru mikilvæg viðbót við þann stuðning. Við leggjum áherslu á að styðja við þá sem þegar hafa náð langt en einnig við ungt og efnilegt íþróttafólk. Með því viljum við reyna að gera fleirum kleift að ná afburðaárangri á sínu sviði.”

 

Í dómnefnd afreksstyrkja sátu Þórdís Lilja Gísladóttir lektor við Háskólann í Reykjavík, sem jafnframt var formaður, Ómar Bragi Stefánsson verkefnastjóri hjá UMFÍ og Finnur Sveinsson, sérfræðingur Landsbankans í samfélagsábyrgð. Skipanin  er í samræmi við þá stefnu bankans að fagfólk utan hans myndi jafnan meirihluta í dómnefnd.

 

Eftirtaldir hlutu afreksstyrki að upphæð 400.000 kr.

  • Guðmundur Sverrisson, spjótkastari í ÍR
  • Helga María Vilhjálmsdóttir, skíðakona í ÍR
  • Kári Gunnarsson, badmintonmaður í TBR
  • Sævar Birgisson, skíðagöngumaður í Skíðafélagi Ólafsfjarðar

 

Eftirtaldir hlutu afreksstyrki framtíðarinnar að upphæð 200.000 kr.

·         Anna Sólveig Snorradóttir, kylfingur í Golfklúbbnum Keili

·         Egill Blöndal, júdómaður í Ungmennafélagi Selfoss

·         Emil Tumi Víglundsson, hjólreiðamaður í Hjólreiðafélagi Reykjavíkur

·         Hilmar Örn Jónsson, skylmingamaður í FH

·         Íris Ósk Hilmarsdóttir, sundkona í Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar

·         Kristmundur Gíslason, taekwondomaður í Íþrótta- og ungmennafélagi Keflavíkur

·         Norma Dögg Róbertsdóttir, fimleikakona í Gerplu


Samfélagssjóður Landsbankans veitir fimm tegundir styrkja á hverju ári: Námsstyrki, samfélagsstyrki, nýsköpunarstyrki, umhverfisstyrki og afreksstyrki.

 Þetta eru frábærar fréttir fyrir Normu Dögg sem er búin að vera mikið á faraldsfæti á þessu ári, hún er búin að fara í 2 ferðir það sem af er ári og er núna á Evrópumótinu í Búlgaríu og svo stefnir hún á að minnsta kosti 2 mót til viðbótar eftir sumarið.

Til hamingju Norma Dögg!

 

You may also like...