Haustmót í hópfimleikum
Haustmót yngri var haldið á Selfossi helgina 22.-23. nóvember þar sem Gerpla mætti með fjögur stúlkna lið í 4. flokki og tvö drengjalið, eitt í KKE og eitt í KKY. Þetta var fyrsta mót vetrarins og tækifæri fyrir þau til að stíga sín fyrstu skref inn í nýtt tímabil ásamt því að þetta var fyrsta mót sem keppt var eftir nýjum reglum. Á Haustmóti keppa öll lið án verðlaunaafhendingar, líkt og undanfarin ár. Í kjölfarið eru gefin út þrjú stigaviðmið í 4. flokki og KKY sem liðin vinna eftir yfir veturinn, og síðan veitt verðlaun í samræmi við þau.
Drengjaliðin í KKE og KKY kepptu í sama hlutanum á laugardeginum þar sem alls tóku 12 lið þátt, níu í KKY og þrjú í KKE.
KKE strákarnir áttu glæsilegt mót og stóðu sig vel þrátt fyrir að missa einn liðsmann vegna meiðsla í upphitun. Þeir sýndu frábæran karakter, stigu upp og kláruðu mótið af miklum styrk. Þeir voru í 1.sæti á gólfi og voru rétt á eftir efsta liðinu á stökk áhöldunum. Samanlagt voru þeir með hæstu einkunn í þeirra flokki og náði því 1.sæti á mótinu.
KKY strákarnir áttu einnig mjög gott mót og skein gleðin af öllum æfingum þeirra. Þeir enduðu í 5. sæti samanlagt, en áttu sinn besta árangur á dýnunni þar sem þeir hlutu hæstu einkunn í sínum flokki, 12.450 stig.
4. flokkur keppti síðan á sunnudag þar sem alls tóku þátt 39 lið í þeim flokki.
Gerpla 1 náði frábærum árangri og hafnaði í 2. sæti. Þær stóðu sig sérstaklega vel á gólfi og hlutu 15.150 stig, sem var aðeins rétt undir efsta sætinu.
Gerpla 2 átti einnig góðan dag og endaði í 6. sæti. Besti árangur þeirra var á gólfi þar sem þær fengu 13.250 stig.
Gerpla 3 lauk keppni í 17. sæti, og var trampólín þeirra sterkasta grein með 12.250 stig.
Gerpla 4 átti flott mót og lenti í 22. sæti. Þær gerðu best á dýnu og fengu þar 12.250 stig.
Það er ljóst að framtíðin er björt hjá okkur í Gerplu með alla þessa flottur iðkendur.
Við óskum öllum þessum frábæru krökkum til hamingju með fyrsta mót vetrarins og hlökkum til að fylgjast með þeim áfram á næsta móti í febrúar.






Haustmót eldriflokka í hópfimleikum – Glæsilegur árangur hjá Gerplu
Helgina 29. og 30. nóvember fór fram Haustmót eldriflokka í hópfimleikum í Ásgarði í Garðabæ. Mótið var haldið eftir nýjum reglum og var jafnframt úrtökumót fyrir Norðurlandamót unglinga sem fer fram í Noregi í apríl 2026. Keppnin var spennandi og sýndu öll liðin okkar glæsilega frammistöðu.
Laugardagur – 3. flokkur hópfimleika og stökkfimi
Á laugardagsmorgun hófst keppni í 3. flokki hópfimleika. Gerpla átti tvö lið í þeim flokki, Gerpla eitt og Gerpla tvö, sem stóðu sig frábærlega. Af 19 liðum hafnaði Gerpla eitt í 3. sæti og Gerpla tvö í 11. sæti. Seinnipartinn var keppt í 3. flokki stökkfimi. Þar átti Gerpla einnig tvö lið og af 10 liðum endaði Gerpla eitt í 5. sæti og Gerpla tvö í 7. sæti.
Sunnudagur – 2. flokkur
Á sunnudeginum mætti 2. flokkur til leiks. Gerpla átti tvö kvennalið í flokknum af 10 liðum sem kepptu. Gerpla eitt sigraði og varð í 1. sæti, en Gerpla tvö hafnaði í 5. sæti, aðeins skammt frá 3. sætinu. Það er mikill styrkur að geta haldið úti tveimur liðum í þessum flokki og erum við afar stolt af því.
Spennandi barátta um keppnisrétt á Norðurlandamóti unglinga í vor
Seinnipartinn á sunnudag hófst mest spennandi hluti mótsins þar sem fyrsti flokkur barðist um sæti á Norðurlandamóti unglinga næsta vor. Gerpla átti lið í 1. flokki mix og 1. flokki kvenna. Keppnin var einstaklega spennandi og sýndi hversu sterku unglingaliðin eru í dag. Til að undirstrika styrkleikann fengu öll þrjú kvennaliðin lendingarbónus á dýnu þar sem þau lentu öll stökkin án móttöku – sem er frábær árangur.
- 1. flokkur mix: Liðið endaði í 2. sæti, aðeins 0,750 stigum frá 1. sætinu. Þau stóðu sig vel á öllum áhöldum og tryggðu sér með þessari frammistöðu þátttökurétt á Norðurlandamótinu í apríl.
- 1. flokkur kvenna: Liðið byrjaði á trampólíni með frábæra liðsumferð, en í annarri umferð komu tvö föll sem kostuðu frádrátt í framkvæmdareinkunn. Þriðja umferð gekk hins vegar glimrandi vel og öll stökk lent. Í dansinum voru stelpurnar stórkostlegar og fengu hæstu einkunn mótsins fyrir dansinn sinn, þar sem öll „erfiðleikamoment“ voru gild. Á dýnunni gerðu þær sér lítið fyrir og lentu öll stökkin. Liðið endaði í 2. sæti og tryggði sér þar með sæti á Norðurlandamótinu.
Tvö lið á Norðurlandamótinu
Gerpla mun því eiga tvö lið á Norðurlandamóti unglinga í Noregi í apríl. Það er því gott undirbúningstímabil framundan þar sem liðin munu vinna í að bæta sig smá á öllum áhöldum.
Við erum afar stolt af iðkendum okkar og þjálfurum sem hafa lagt mikla vinnu í undirbúning og uppskera eftir því.





