fbpx

Fjölmenni við vígslu fimleikahússins við Vatnsendaskóla

Íþróttahús við Vatnsendaskóla var vígt við hátíðlega viðhöfn á afmælisdegi Kópavogsbæjar föstudaginn 11. maí.

Íþróttahús Vatnsendaskóla er nýjasta íþróttahúsið í Kópavogi. Það er sérhannað fyrir hópfimleika og mun Íþróttafélagið Gerpla nýta húsið undir sína starfsemi en einnig fer íþróttakennsla Vatnsendaskóla fram í húsinu. Húsið er eitt af glæsilegri fimleikahúsum á landinu og mun þessi viðbót við Versali verða bylting fyrir þjálfara og iðkendur Gerplu. Aðdragandi hússins er búinn að vera frekar langur og hafa margir lagt hönd á plóg við að gera húsið eins glæsilegt og hentugt og raun ber vitni og ber það að þakka.

Skólahljómsveit Kópavogs lék nokkur lög og kór Vatnsendaskóla söng og sýningarhópur Gerplu í hópfimleikum sýndi listir sínar.

Guðrún Soffía Jónasdóttir skólastjóri Vatnsendaskóla bauð gesti velkomna og Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri, Theodóra S. Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs og Harpa Þorláksdóttir formaður Gerplu fluttu ávörp en einnig færði Jón Finnbogason Gerplu blómvönd fyrir hönd ÍSÍ og sagði nokkur orð.

Allir voru sammála um að dagurinn væri mikill hátíðisdagur og vígsla hússins mikið fagnaðarefni.

Iðkendur og ekki síst þjálfarar iða í skinninu eftir að fá að hefja æfingar í húsinu en það mun gerast á næstu dögum.

 

You may also like...