fbpx

Fimleikafólk FSÍ 2010 – Gerplufólkið Dýri og Íris Mist

fimleikafolk

Fimleikafólk ársins 2010

Í dag var tilkynnt val á fimleikamanni og konu ársins hjá Fimleikasmbandi Íslands. Íris Mist Magnúsdóttir og Dýri Kristjánsson hlutu þennan mikla heiður að þessu sinni og erum við í Gerplu einstaklega stolt þar sem þau iðka bæði íþrótt sína hjá félaginu. Við óskum þeim til hamingju.

Dýri hefur átt langan og farsælan fimleikaferil, fyrst sem keppandi og landsliðsmaður í áhaldafimleikum og nú í seinni tíð í hópfimleikum. Ferilinn spannar 21 ár, hann er elsti keppandinn á mótum fimleikasambandsins og nú sem ávallt í fremstu röð. Dýri er mikill fyrirmyndardrengur og er íþróttagrein sinni til mikils sóma hvar sem hann kemur fram. Hann er kurteis, hógvær og mjög metnaðarfullur einstaklingur sem ávallt leggur allt sitt í þau verkefni sem hann tekur sér fyrir hendur. Dýri hefur náð að sameina háskólanám, krefjandi íþrótt og hin ýmsu verkefni sem á vegi hans verða. Nú síðast hefur hann slegið í gegn sem hinn viðkunnalegi íþróttaálfur og þannig haft áhrif á heilsu og lífstíl þúsunda barna hérlendis sem og á erlendum vettvangi.

Dýri hlýtur titilinn fimleikamaður ársins 2010 fyrir framúrskarandi árangur fyrsta karlalandsliðs Ísland á Evópumótinu í hópfimleikum sem fram fór í Malmö nú í haust.Liðið hafnaði þar í 4. sæti í fjölþraut og náði einnig í 3 sæti í gólfæfingum. Margra ára keppnisreynsla Dýra, agi hans og metnaður reyndist liðinu og liðsfélögum hans ómetanlegur styrkur á mótinu. Félagslið hans, Gerpla varð einnig Íslands- og bikarmeistari á árinu.

Lykilmaður í Evrópumeistaraliði Íslands er Íris Mist Magnúsdóttir, fimleikakona ársins 2010. Hún er stoð og stytta í liði sínu og á stóran þátt í góðu gengi liðsins í Malmö. Hún hefur lengi vel verið besta trampolínstökkkona Evrópu og stökk t.a.m. erfiðustu stökkin á mótinu í haust sem hafði mikla þýðingu fyrir lokaeinkunn liðsins. Dýnustökkin framkvæmir hún af mikilli yfirvegun og geislar af lífi í dansinum. Liðið vann allar greinar á mótinu og má því með sanni segja að Íris Mist sé ein af allra bestu fimleikakonum Evrópu sem lykilmaður á öllum vígstöðvum í keppni. Á liðnu ári hefur Íris Mist unnið alla þá titla sem í boði eru með félagsliði sínu Gerplu: bikar-, deildar- og Íslandsmeistari árið 2010.

Íris Mist er íþróttamaður af bestu gerð, hún lifir fyrir íþrótt sína. Hún leggur liðsmönnum sínum lið jafnt innan salar sem utan. Auðmýkt hennar gagnvart ástundun og árangri er öðrum fimleikamönnum ríkur innblástur og er hún fyrirmynd annarra fimleikamanna. Hún er vel að því komin að bera titilinn fimleikakona ársins 2010.

You may also like...