Garpamót Gerplu – haust 2025
Garpamót Gerplu fór fram föstudaginn 14. nóvember og laugardaginn 15. nóvember. Mótið var skipt í 6 hluta, þar sem iðkendur í framhaldshópum sýndu á föstudeginum og iðkendur í grunnhópum á laugardeginum. Alls tóku um 550 iðkendur þátt í þessum 6 hlutum mótsins og sýndu fyrirfram ákveðnar fimleikaæfingar fyrir fullum sal áhorfenda.
Áhorfendur voru duglegir að klappa fyrir þessum flottu iðkendum þegar þeir sýndu sínar æfingar. Iðkendurnir, sem eru á aldrinum 5–7 ára, stigu hér sín fyrstu skref í að koma fram og var sérstaklega ánægjulegt að sjá hve vel þau stóðu sig, hversu vel þau nutu sín og hvernig þau létu ljós sitt skína.
Að loknu móti fengu allir iðkendur sem mættu handskrifað viðurkenningarskjal með nafni sínu ásamt verðlaunapeningi Garpamóts frá Gerplu.
Við hjá Gerplu erum afar ánægð með vel heppnað Garpamót og lítum björtum augum til framtíðar.
Áfram Gerpla!








































