fbpx

Mikilvægum áfanga náð í húsnæðismálum Gerplu

Bæjarstjórn og bæjarráð hafa samþykkt tillögu starfshóps Gerplu og Kópavogsbæjar um framtíðarlausn á húsnæðismálum til fimleikaiðkunar í Kópavogi.  Stjórn Gerplu hafði áður fjallað um málið og einnig samþykkt þær tillögur sem starfshópurinn lagði til um að byggja nýtt íþróttahús við Vatnsendaskóla. 

Um er að ræða afa mikilvægan áfanga í því krefjandi verkefni að mæta síaukinni þörf fyrir aðstöðu fyrir starfsemi félagsins.  Starfshópurinn fór út í mjög ítarlega greiningarvinnu, m.a. með aðstoð utanaðkomandi sérfræðinga, sem mun nýtast í áframhaldandi vinnu að málinu. 

Framundan er hins vegar gerð samnings milli Gerplu og Kópavogsbæjar um byggingu á íþróttahúsi við Vatnsendaskóla sem taki mið af þörfum Kópavogsbæjar vegna skólastarfs og Gerplu vegna fimleikaiðkunnar.    Stefnt er því að Gerpla komi að hönnun og fjármögnun mannvirkisins í samstarfi við Kópavogsbæ.  Afar mikilvægt er að áfram verði unnið hratt að lausn málsins enda finna iðkendur og starfsmenn Gerplu daglega fyrir því hvað þrengir mikið að starfseminni.  Það er von okkar að nýtt íþróttahús við Vatnsendaskóla með sérhæfða fimleikaaðstöðu verði tekið í notkun um mitt ár 2016.

Það er afar ánægjulegt að fulltrúar Gerplu og starfsmenn Kópavogsbæjar hafi náð niðurstöðu í málinu sem nú hefur verið samþykkt í bæjarráði og bæjarstjórn.  Það er einnig ánægjulegt að verða vitni að því hversu breið samstaða bæjarfulltrúa er varðandi það að standa með félaginu og leysa húsnæðisvanda Gerplu. 

Málinu er hins vegar ekki enn lokið og mikilvægt að haldið verði áfram að vinna að málinu og að allir aðilar standi áfram saman um að vinna málinu farsælan endi.

Kær kveðja,

Harpa Þorláksdóttir

 

Formaður Gerplu

You may also like...