Íþróttabíllinn

Tímaáætlun frístundabíls frá og með 7.janúar 2019

Frístundabíllinn í Kópavogi_vor 2019

Stoppustöðvar Íþróttabílsins

Við hvetjum ykkur foreldra til að koma skilaboðum til viðkomandi dægradvalar ef barnið á að nota vagninn og velja þá ferð sem hentar best þannig að börnin þurfi að bíða sem styðst fyrir æfingu.

Það þarf þorp til að ala upp barn

Kæru foreldrar og forráðamenn,

Stefnan hjá íþróttafélögunum í Kópavogi er að nýta íþróttahúsin sem best. Einnig að yngstu iðkendur félaganna geti klárað sínar æfingar fyrir klukkan 17 á daginn. Þannig geta þau notið tímans eftir vinnu foreldra með fjölskyldunni án þess að foreldrar þurfi að vera í stressi að skutlast og sækja á hinar og þessar æfingar. Til að tímaáætlun íþróttavagna gangi upp þarf að huga að því að börnin séu tilbúin á viðkomandi stoppustöð þegar vagninn mætir. Starfsmenn dægradvala hafa unnið gott starf við að aðstoða börnin, en betur má ef duga skal. Því viljum við biðja ykkur foreldra að aðstoða okkur, dægradvölina og börnin svo að allt gangi sem best fyrir sig. Eins og máltækið segir „Það þarf þorp til að ala upp barn“.

Ekki er verið að greiða aukalega fyrir þjónustu íþróttavagnanna heldur leggja stjórnir félaganna til kostnaðinn við rekstur vagnanna. Því er ekki ekið á þeim dögum sem nýting vagnsins er í lágmarki líkt og vetrarfríum, jóla- og páskafríum og sameiginlegum starfs- og skipulagsdögum skóla.

Hér eru nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga sem þið gætuð farið yfir með börnum ykkar til að auðvelda daginn hjá þeim:

Hvenær eru börn að mæta á æfingar – Gott er að kenna barninu og minna það á hvaða daga æfingar eru og fara vel yfir með þeim ef breyta á útaf venjunni til dæmis ef foreldri eða annar aðili mun sækja það á æfingastað og þarf því ekki að fara til baka með íþróttavagninum.

Reima skóna sína – gott er að æfa sig heima í að reima skóna þannig að slaufan dugi út æfinguna. Þetta sparar líka tíma hjá þjálfurum sem oft þurfa að eyða mörgum mínútum af æfingatíma í að reima fyrir börnin.

Skór og annað sem þarf til íþróttaiðkunnar – Það gæti líka sparað tíma ef búið er að fara yfir reimarnar á íþróttaskónum hjá barninu áður en farið er í skólann þannig að ekki þurfi að eyða tíma í að leysa hnúta áður en æfing hefst. Gott væri ef börnin gætu jafnvel verið í íþróttafötunum innan undir skólafötunum til að auðvelda þeim þegar á æfingarstað er komið að gera sig tilbúin fyrir æfingu ásamt því að koma í veg fyrir að börnin hlaupi út illa klædd. Einnig er gott að skór, legghlífar og annað sem börnin þurfa að notast við á æfingunni séu í sér poka/tösku sem auðveldlega er hægt að kippa með.

Íþróttavagninn getur verið strætisvagn, það er að segja það er heimilt að standa í honum. Það eru 34 sæti í bílnum og leyfi fyrir rúmlega 40 stæði. Ætlast er til að sætin séu nýtt að fullu áður en farið er að notast við stæðin.

Öryggisbelti – í sætum eru öryggisbelti og er ætlast til að iðkendur notist við þau óháð aldri.

Borið hefur á að starfsmaður þurfi að standa yfir börnunum til að þau spenni beltin og einnig hefur þurft að rökræða við börnin að þau eigi að spenna beltin sem er ekki nægilega gott. Við viljum því biðja ykkur foreldra að aðstoða okkur í málinu og ræða við börnin heima fyrir um að beltin eiga ávallt að vera spennt þegar vagninn er á ferð.

Stæði – Ef sætin eru full í vagninum þá er farþegum vagnsins heimilt að standa og ber þeim þá að halda sér fast í súlur eða handföng sem eru í vagninum og vera með báðar fætur í gólfi.

Borið hefur á því að þau sem standa hafa verið að halda sér í og sveifla sér í vagninum á ferð sem aðeins bíður hættunni heim. Áréttað er að almennar umgengnisreglur gilda í íþróttavagninum líkt og annarsstaðar ( t.d. heimilum og skóla) til dæmis er ætlast til að börn séu ekki að príla yfir sæti eða hanga í súlum.

Reiðhjól, hlaupahjól, hjólabretti og hjólaskautar – Ekki er leyfilegt að hafa reiðhjól, hlaupahjól, hjólabretti eða hjólaskauta í vagninum.  Bæði taka hjólin oft of mikið pláss og þá sérstaklega í þeim ferðum sem vagninn er fullnýttur og einnig hefur borið á því að verið sé að stelast til að standa á hjólunum á ferð sem bíður bara upp á slys.

Nesti – ekki er heimilt að borða nesti í vagninum. Passa þarf að skilja ekki eftir rusl, mulning eða annað sull eftir í vagninum. Iðkendur eru beðnir að taka með sér tóma poka, umbúðir, fernur og flöskur úr vagninum og henda í næstu ruslafötu á áfangastað.

Stoppistöðvar – Notendur Íþróttavagnsins eru beðnir að bíða eftir að vagninn stöðvist og hlaupi alls ekki á móti honum þegar þau sjá hann. Sama á við þegar á áfangastað er komið að bíða eftir að vagninn stöðvist áður en farið er af stað úr vagninum.

Með fyrirfram þakklæti fyrir gott samstarf

Íþróttafélögin